Ætlum að sýna hvað býr í Keflavíkurliðinu
– segir Halldór Garðar Hermannsson sem er á sínu öðru tímabili með körfuknattleiksliði Keflavíkur. Er fæddur og uppalinn í Þorlákshöfn og lék með Þór Þorlákshöfn þegar liðið tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil eftir sigur á Keflavík í úrslitum fyrir tveimur árum.
Halldór segir það hafa verið gott að alast upp í Þorlákshöfn, frekar lítill staður þar sem allir þekktu alla. Halldór var átta eða níu ára gamall þegar hann byrjaði að æfa körfubolta og hann var eitthvað í fótbolta og frjálsum íþróttum framan af.
En hvenær ákveður þú að einbeita þér að körfuboltanum?
„Ég tók þá ákvörðun að einbeita mér að körfunni í svona áttunda, níunda bekk. Það var varla nægur mannskapur í lið í fótboltanum svo karfan varð eiginlega sjálfkrafa ofan á.“
Veltir þú aldrei fyrir þér að fara út í háskólaboltann?
„Jú, ég spáði alveg í það en gerði einhvern veginn aldrei neitt meira í því, fór svo bara í Háskóla Íslands og kláraði Bs-gráðu íþróttafræði,“ segir Halldór sem hefur tekið stefnuna á Master á næsta ári. Hann starfar núna við kennslu í Myllubakkaskóla þar sem hann sinnir m.a. íslenskustuðningi við nýbúa, þá er hann líka að þjálfa tíu og ellefu ára stráka í körfubolta hjá Keflavík.
„Þegar ég kláraði HÍ fór ég að leita mér að vinnu og þá var mér bent á að það vantaði kennara í Myllubakkaskóla og ég bara sló til. Þarna eru nokkrir samstarfsfélagar sem ég þekki vel í gegnum körfuna hjá Keflavík, eins og Valur [Orri Valsson], Siggi [Sigurður Ingimundarson] og Svenni [Sveinn Ólafsson] – Siggi, Svenni og Jói Steinars eru eldheitir Liverpool-menn en ég styð Manchester United svo það skapast oft líflegar umræður á kaffistofunni.“
Tókstu þér þá ekki frí eftir 7:0 tapið fyrir Liverpool?
„Úff, það var erfitt maður,“ segir Halldór og glottir. „Maður fékk heldur betur að heyra það þá.“
Körfuboltapar
Áttu þér einhver áhugamál fyrir utan körfuna?
„Það er nú ekki mikill tími aflögu en mér finnst gott að henda mér í ræktina, fer svona þrisvar í viku til Gunna Einars og svo er fínt að skella sér í pottinn af og til. Annars hef ég gaman að ferðast þegar körfuboltatímabilið er ekki í gangi,“ segir Halldór en hafði ágætis tengingu við Keflavík áður en hann flutti sig frá Þór til Keflavíkur. Unnusta hans er Katla Garðarsdóttir, fyrirliði meistaraflokks kvenna, en þau tvö kynntust í gegnum körfuboltalandsliðin og hafa verið par í um sjö ár.
„Það er mjög gott að við séum bæði á fullu í körfunni. Þá erum við bæði í fríi á sumrin og okkur þykir gaman að ferðast saman. Það er voðalega ljúft að geta kúplað sig út og komast í burt í afslöppun saman.“
Hvað með önnur áhugamál eins og golf, ekkert byrjaður í því?
„Maddi [Margeir Vilhjálmsson], föðurbróðir Kötlu og golfkennari, verður sá fyrsti sem ég hringi í þegar ég klára körfuboltaferilinn. Læt hann pússa golfsveifluna hjá mér en það er ekki tími fyrir golf strax.“
Úrslitakeppnin framundan
Keflavík hóf þetta tímabil af krafti í Subway-deild karla og var lengst af á toppi deildarinnar. Keflavík vann alla sína leiki í janúar en það tók hins vegar að halla undan fæti í febrúar og nú hefur Keflavík aðeins unnið einu sinni í síðustu sex leikjum. Til að bæta gráu ofan á svart meiddist Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði liðsins, og sjálfstraustið virtist gufa upp hjá liðinu.
Hvernig er tilfinningin fyrir úrslitakeppninni sem hefst núna eftir mánaðarmót?
„Við erum bjartsýnir fyrir úrslitakeppnina,“ segir Halldór. „Þetta er náttúrlega alveg nýtt mót sem er að hefjast og við þurfum að núllstilla okkur og byrja upp á nýtt. Það er kannski skrítið að segja það eins og staðan er núna en okkur finnst þetta vera að koma hjá okkur. Við erum búnir að vera í miklu basli upp á síðkastið og misstum einhvern veginn trúna á sjálfum okkur.“
Það er eins og þið hafið misst tökin við að missa Hörð út, breiddin í liðinu er samt það mikil að maður hefði haldið að maður komi í manns stað. Þú ert einn af fáum sem hefur náð að stíga upp í síðustu leikjum.
„Já, ég er sammála að hópurinn er vel skipaður og við höfum nóg af góðum leikmönnum. Það er hins vegar eins og einhver örvænting hafi gripið um sig þegar við lentum á vegg en við höfum verið að vinna í þessu og ætlum að sanna fyrir stuðningsmönnum og okkur sjálfum hvað býr í Keflavíkurliðinu. Mórallinn í liðinu er góður og við erum samstíga um að gera betur. Lokaleikurinn í deildinni, sem er á móti Njarðvík, kemur okkur aftur á sigurbraut,“ sagði Halldór að lokum.