Ætlum að sækja og vinna
Keflavíkurstúlkur unnu stórsigur á FH í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu í síðustu viku, 6-1, en í kvöld mætir Keflavík toppliði Vals á Valbjarnarvelli.
Valsstúlkur eru í toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga en Keflavík er í 5. sæti deildarinnar með 6 stig eftir 5 leiki. Það er því óhætt að segja að á brattann verði að sækja hjá Keflavíkurkonum.
„Nú er kominn tími á tapleik hjá Val,“ sagði Guðný Petrína Þórðardóttir í samtali við Víkurfréttir. „Við þurfum að ná góðri stemmningu í liðið en Valur spilar mikla rangstöðutaktík,“ sagði Guðný og þvertók fyrir það að Keflavík myndi pakka í vörn.
„Við ætlum að sækja og vinna þennan leik, Keflavík á heima í þremur efstu sætunum í deildinni og við vorum óheppnar á móti KR og Breiðablik og gefum þessum stórliðum ekkert eftir,“ sagði Guðný en það er aldrei að vita nema systir Guðnýjar, Björg Ásta, verði í Keflavíkurliðinu en komi þó inn sem varamaður.
Björg hefur átt við meiðsl að stríða og ekki enn náð að leika fyrir Keflavík í sumar. Björg er á meðal fremstu knattspyrnukvenna landsins og því styrkir hún Keflavíkurliðið til muna þegar hún er komin í vörnina. Leikurinn hefst kl. 19:15 í kvöld.