Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

„Ætlar þú að verða sterkari en kærastinn?“
Sunnudagur 28. febrúar 2016 kl. 12:53

„Ætlar þú að verða sterkari en kærastinn?“

Hin tvítuga Inga María er Norðurlandameistari í kraftlyftingum

Inga María Henningsdóttir úr lyftingadeild Massa í Njarðvík varð um helgina Norðurlandameistari unglinga í kraftlyftingum. Inga lyfti mest 142,5 kg í hnébeygju, 72,5 kg í bekkbressu og 135 kg í réttstöðu. Samanlagt 350 kg, hvorki meira né minna. Hún bætti sinn besta árangur bæði í hnébeygju og bekkpressu en var 10 kg frá sínu besta í réttstöðu.

Inga er tvítugur Keflvíkingur sem ekki hefur stundað lyftingar lengi. Hún tók fyrst þátt í móti eftir að hafa einungis æft í tvær vikur en ferillinn hófst árið 2013. Hún segir að áhuginn hafi kviknað um leið. Hún hafði prófað margar íþróttagreinar á sínum yngri árum en aldrei sýnt þeim mikinn áhuga. Þegar hún fór að kljást við lóðin þá fann hún að þarna væri hún á heimavelli. „Ég fann mig í lyftingunum og náði tækninni fljótlega þannig að ég fór fljótt að geta tekið ágætis þyngdir. Ég fattaði fljótlega um hvað þetta snerist,“ segir Inga. Hún vinnur í vopnaleitinni hjá Isavia en hyggur á nám í íþróttafræði eða einkaþjálfun. Hún stefnir á að komast á bæði Evrópu – og heimsmeistaramót í framtíðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Stefnir á hálft tonn

Inga á nóg inni en hún náði sér ekki á strik í réttstöðu á Norðurlandamótinu sem haldið var í Svíþjóð. Þar missti hún takið í næst síðustu lyftunni og því tók hún ekki mikla áhættu í síðustu lyftu. Samanlagt lyfti Inga 350 kg en hún á sér markmið að komast yfir 500 kg múrinn innan skamms. „Þar langar manni að vera, þá er maður orðinn nokkuð sterkur. Það er ekki langt í 400 kg múrinn og eftir það er ekki svo langt í hálfa tonnið,“ segir Inga. Hún kann vel við æfingarnar og mætir samviskusamlega sex sinnum í viku í Massa. „Þetta er miklu skemmtilegra en ég hélt. Þú ert mikið að æfa tæknina sem er lykilatriði. Ef þú nærð henni þá koma þyngdirnar.“

Á landsvísu eru kraftlyftingar að ná auknum vinsældum meðal kvenna. Inga segir að fleiri stelpur af Suðurnesjum mættu skoða það að stunda þessa íþrótt. „Það eru sumir sem segja að maður muni líta út eins og karlmaður þegar maður stundar kraftlyftingar. Margar stelpur halda það og fara þess vegna ekki í lyftingar. Fólk verður stundum hissa þegar það kemst að því að ég æfi lyftingar, því finnst eins að ég ætti að vera massaðari.“

Inga viðurkennir að um stund hafi hún haft áhyggjur af því hafa verið komin með of stór læri eða verða of stælt. Á tímabili hætti hún því að taka hnébeygjur. „Ég fór að hlaupa og brenna en
áhyggjur af því að lærin myndi stækka voru óþarfar.“ Hún segist hafa verið hrædd um eitthvað ákveðið útlit sem hún hafði m.a. séð á samfélagsmiðlum.

Eðlilegra að stelpur séu massaðar og sterkar

Þegar Inga var að byrja að æfa lyftingar fannst henni stundum eins og hún væri litin hornauga. Eftir að crossfit hins vegar ruddi sér til rúms þá hafi það hins vegar þótt eðlilegra og sjálfsagðara að stelpur væru massaðar og sterkar. Oft fær Inga þó að heyra glósur frá körlunum sem lyfta með henni í Massa. Þegar hún er til dæmis að æfa réttstöðulyftu þá spyrja stundum eldri menn hana hvort hún ætli sér að verða sterkari en kærastinn sinn og segja að það sé nú ekki eðlilegt fyrir kvenmann að geta lyft svona. „Ég hlæ yfirleitt af svona kommentum og segi þeim svo að gott sé að geta þaggað niður í kærastanum.“ Inga á kærasta sem er ögn sterkari en hún en hann stundar lyftingar af kappi. „Hann er samt orðinn pínu stressaður,“ segir hún og hlær.

VF myndir/ Eyþór Sæm.