Ætlaði að byrja að æfa fótbrotinn
Snorri Már Jónsson fyrirliði Njarðvíkinga í annarri deild karla verður frá í að minnsta kosti sex vikur eftir að hann fótbrotnaði í 1-0 tapi liðsins gegn KR í VISA-bikarnum fyrr í þessum mánuði.
Snorri segir að það hafi verið alveg glórulaust að ekkert hafi verið dæmt þegar hann var nelgdur niður inní teig hjá KR. Hann ætlaði að byrja að æfa viku síðar því hann taldi meiðslin aðeins vera tognun.
,,Ég var búinn að reyna að skokka og var byrjaður að vinna en svo fór ég í myndatöku og þá kom í ljós að ég var brotinn, ég hélt að þetta væri bara tognun," sagði Snorri Már sem hefur skorað eitt mark í sjö leikjum fyrir Njarðvík í annarri deildinni í sumar, en hann verður liðinu að sjálfsögðu innan handar meðan hann er á hliðarlínunni.
Njarðvík er á toppnum í deildinni með 21 stig og í kvöld mæta þeir ÍR sem er í sjöunda sæti með níu stig.