Ætla sér að taka okkur í kennslustund
Keflavík er komið til Herning í Danmörku þar sem liðið spilar seinni leik sinni við FC Midtjylland í Evrópukeppninni í kvöld. Keflavík vann fyrri leikinn 3-2 og dugar því jafntefli til þess að komast áfram í næstu umferð. „Möguleikarnir hjá okkur liggja bara í því að við unnum fyrri leikinn. Þetta er gríðarlega sterkt lið og það má ekki vanmeta það," segir Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
„Ég held að við þurfum að skora í þessum leik til þess að eiga einhvern möguleika. Við sögðum það líka fyrir þessar viðureignir að við þyrftum að spila af 100% getu í báðum leikjunum til þess að komast áfram."
FC Midtjylland vann Stefán Gíslason og félaga í Bröndby 5-0 á heimavelli í dönsku úrvalsdeildinni um helgina. Kristján segist vera búinn að skoða þann leik. „Þeir spiluðu aðeins öðruvísi gegn Bröndby og pressuðu ekki alveg eins framarlega og þeir hafa verið að gera. Ég á samt frekar von á því að þeir pressi okkur framarlega og reyni það allan leikinn," segir Kristján sem kveðst hafa orðið var við það að Danirnir ætli að sýna Keflavíkurliðinu í tvo heimana. „Þeir eru mjög heitir út í okkur eftir að hafa tapað fyrir okkur. Þeir hafa sagt það hérna í fjölmiðlum að þeir ætli sér að taka okkur í kennslustund."
Stefán Gíslason er leikmaður Bröndby og fékk að kynnast því af eigin raun um helgina hversu sterkt lið FC Midtjylland er. „Þeir unnu okkur 5-0 og þeir voru hrikalega góðir á móti okkur. Þeir eiga eitt mark á það og það er allt hægt en Keflvíkingarnir þurfa að eiga toppleik og vel það," segir Stefán sem hrósar sínum gömlu félögum í Keflavík fyrir úrslitin í fyrri leiknum.
„Það kom mjög á óvart hér út í Danmörku að Keflavík skyldi vinna fyrri leikinn. Ég held að fólk á Íslandi geri sér ekki alveg grein fyrir því hversu sterkt þetta lið er og hvað þetta eru í raun góð úrslit hjá Keflvíkingunum. Það er mjög hár og góður standard á boltanum hérna í Danmörku og þetta er eitt af toppliðunum," segir Stefán sem býst við mjög erfiðum leik hjá Keflavík í kvöld.
Tekið af www.visir.is