Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Ætla ekki í eróbikk
Fimmtudagur 1. mars 2007 kl. 10:30

Ætla ekki í eróbikk

Annað kvöld verða tímamót í íslenskum körfuknattleik þegar Marel Örn Guðlaugsson slær leikjametið í íslensku úrvalsdeildinni. Marel er Grindvíkingum að góðu kunnur en hefur alið manninn í Hafnarfirði og 35 ára gamall er hann enn að með Haukum. Á morgun kemst Marel upp fyrir mætan Keflvíking er hann leikur sinn 410. leik í úrvalsdeildinni. Eins og sakir standa eru Marel og Guðjón Skúlason með jafn marga leiki eða 409 talsins og annað kvöld slær Marel metið og kemst í 410 leiki.

 

„Ég er ekki að þessu til að skáka Guðjóni, ég hef bara ennþá svo gaman af þessu, annars væri ég löngu hættur,“ sagði Marel sem hóf feril sinn í Grindavík og þá aðeins 15 ára að aldri. „Fyrsti deildarleikurinn minn var um vorið 1988 gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni, ég setti tvö stig í leiknum og minnir að við höfum tapað stórt. Þetta var í upphafi Grindvíkinga í úrvalsdeild.“

 

Sá stóri kom í Keflavík

Marel lék í níu ár með Grindvíkingum en þaðan lá leiðin til KR í tvö ár og síðast gekk hann til liðs við Hauka. Ferill hans er glæstur enda átti Marel stóran þátt í fyrsta bikar- og Íslandsmeistaratitil Grindvíkinga. Þeir gulu urðu fyrst bikarmeistarar leiktíðina 1994-1995 en árið eftir urðu þeir Íslandsmeistarar og það í úrslitarimmu gegn Keflavík. ,,Það eftirminnilegasta við ferilinn er þegar við urðum Íslandsmeistarar, þá lék Rodney Dobart með okkur og ég man að hann tróð þrisvar sinnum í leiknum allsvakalega og í tvígang yfir David Grissom,” sagði Marel sællar minningar.

 

Reynslan alltaf til staðar

Síðan Marel gekk til liðs við Hauka hefur lítið farið fyrir stórtitlunum en hann heldur engu að síður ótrauður áfram og veit ekki um betri líkamsrækt. ,,Þetta er spurning um að hafa gaman af þessu og ef maður getur haldið sér þokkalega heilum þá er þetta ekkert vandamál. Í dag er maður reyndar langt frá því að vera sami leikmaðurinn og maður var, snerpan er farin að segja til sín en reynslan verður alltaf til staðar,” sagði Marel sposkur á svip. Óhætt er að segja að Marel sé gamli kallinn í Haukaliðinu en hann segir þó strákana leggja við hlustir þegar hann hefur eitthvað til málanna að leggja. ,,Ég held þeir beri nú þokkalega virðingu fyrir mér sem leikmanni og þeir hafa beint og óbeint leitað til mín eftir einhverju. Annars lætur maður þá heyra það annað slagið þegar gamli kallinn er að rúlla þeim upp á æfingum.”

 

Uppháir sokkar

Körfuknattleiksáhangendur þurftu ekki að leita lengi eftir Marel inni á vellinum. Fremur hávaxinn bakvörður með uppháa sokka og baneitrað þriggja stiga skot. Hefur eitthvað af þessu breyst eftir að árin færðust yfir?

„Þegar ég kom til Hauka þróaðist þetta út í það að ég var settur til höfuðs einhverjum leikmönnum í vörninni og þá sérstaklega fyrstu árin mín með Haukum. Þá var ég að dekka kana eins og Damon Johnson og Brenton Birmingham þegar maður hafði enn snerpuna til þessa verka,” sagði Marel sem gert hefur 2,1 stig að meðaltali í leik með Haukum í vetur.

 

Held áfram að sprikla

Nú þegar Marel við það að bæta Íslandsmetið þá er ekki úr vegi að grennslast eftir því hversu mikið leikmaðurinn telur að hann eigi eftir á körfuboltaferlinum. ,,Ég get enn haldið eitthvað áfram og ætla ekki að gefa það út að ég sé hættur þó töluverðar líkur séu á því að þetta verði komið gott í vor. Ég verð áfram í körfubolta næsta haust, hvar sem það verður. Maður heldur áfram að sprikla í bolta og ég ætla ekki í eróbikk eða lyfta lóðum.”

 

Uppi við vegg

Aðeins þrír leikir eru eftir í Iceland Express deildinni hjá Haukum og þurfa þeir fjögur stig til þess að halda sér í deildinni. ,,Við verðum bara að sækja sigra í heimaleikjunum okkar og það eru sex stig eftir í pottinum. Nú er bara að duga eða drepast og við verðum bara að gjöra svo vel og vinna síðustu þrjá leikina,” sagði Marel og tónninn í röddinni gaf það vel til kynna að keppnisskapið væri enn til staðar þó Haukar væru í botnslagnum.

Marel hefur búið síðustu ár í Hafnarfirði en er hvað þekktastur fyrir afrek sín með Grindvíkingum. Hann ætlaði sér ávallt að ljúka ferlinum með Grindavík en hann gerir ekki ráð fyrir að það verði að veruleika. ,,Maður er kominn með stóra fjölskyldu og ekki mikill tími aflögu til þess að fara að keyra á milli, ég hefði þurft að gera þetta fyrir nokkrum árum síðan,” sagði Marel. Allar bendir því til þess að Marel ljúki ferlinum hjá Haukum en Víkurfréttir vildu að lokum fá að vita hvernig leikmenn færu að því að leika í 19 ár í efstu deild.

 

,,Æfa þarf samviskusamlega og allt of margir gleyma því að teygja eftir æfingar. Ég finn stóran mun á mér ef ég gleymi því að teygja,” sagði Marel sem á morgun verður leikjahæsti íslenski leikmaðurinn í úrvalsdeild frá upphafi þegar Haukar taka á móti ÍR að Ásvöllum.

 

Tölfræði:
409 leikir í Úrvalsdeild
3293 stig í Úrvalsdeild
1 Íslandsmeistaratitill
1 Bikarmeistaratitill
38 A landsleikir
5 U20 landsleikir
18 Unglinga- og drengjalandsleikir

 

[email protected]

 

VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson og úr ljósmyndasafni Víkurfrétta

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024