Æsispennandi grannaslagur - risaleikur hjá Bullock
Leikur Keflvíkinga og Grindvíkinga í Iceland Express-deild karla var æsispennandi allt til loka en svo fór að lokum að Grindvíkingar höfðu eins stigs sigur, 85-86 en spennan var rafmögnuð í lokin. J´Nathan Bullock átti stórleik en kappinn var með 33 stig og 19 fráköst.
Grindvíkingar voru með yfirhöndina bróðurpartinn úr leiknum en Keflvíkingar áttu góða spretti og náðu meðal annars 15 stiga forystu í öðrum leikhluta.
Keflvíkingar áttu svo flottan loksprett og komust yfir með tveimur þriggja stiga körfum frá Vali Orra Valssyni og Magnúsi Gunnarssyni þegar 4 mínútur voru eftir en þá virtusr Grindvíkingar vera að síga fram úr. Jóhann Árni Ólafsson svaraði með tveimur skotum fyrir utan bogann og Grindvíkingar voru 6 stigum yfir þegar rétt rúmar 2 mínútur voru eftir af leiknum og Keflvíkingar tóku leikhlé.
Jarryd Cole minnkaði muninn af vítalínunni eftir að Sigurður Þorsteinsson hafði fengið sína 5. villu. Jóhann Árni ætlaði sér að setja eina þriggja stiga körfuna til viðbótar en missti marks. Valur Orri setti hins vegar eina slíka körfu á hinum endanum og leikurinn jafn, 80-80 þegar 1:30 voru eftir leiks.
Jóhann Árni skoraði fyrir Grindavík og Charlie Parker fyrir Keflavík skoraði 4 stig á stuttum tíma og Keflvíkingar voru 82-80 yfir þegar 37 sekúndur voru eftir af leiknum.
J´Nathan Bullock var maðurinn sem Grindvíkingar treystu á og hann skoraði auk þess að fá víti sem hann setti niður, Charlie Parker vildi ekki vera minni maður og lék þetta eftir Bullock á hinum endanum og Keflvíkingar með leikinn í hendi sér þegar 15 sekúndur voru eftir, 85-83.
Grindvíkingar réðu ráðum sínum í leikhlé og Björn Brynjólfsson skoraði risastóra þriggja stiga körfu þegar aðeins 6 sekúndur voru eftir og Grindvíkingar því komnir 1 stigi yfir. Í lokasókn Keflvíkinga náði Charlie Parker svo ekki að skora og því fóru Grindvíkingar heim með stigin tvö.
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 27/4 fráköst, Charles Michael Parker 24/8 fráköst, Valur Orri Valsson 16/6 stoðsendingar, Jarryd Cole 12/8 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 6/4 fráköst
Grindavík: J'Nathan Bullock 33/19 fráköst, Giordan Watson 15/5 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 15, Björn Steinar Brynjólfsson 6, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 6/7 fráköst/3 varin skot, Þorleifur Ólafsson 6, Ólafur Ólafsson 3/4 fráköst, Ryan Pettinella 2
Myndir/POP: Björn Brynjólfsson tryggði Grindvíkingum sigurinn í kvöld og Magnús Gunnarsson var drjúgur hjá Keflvíkingum.