Íþróttir

Æfir fimleika af kappi
Miðvikudagur 20. desember 2023 kl. 06:04

Æfir fimleika af kappi

Keflvíkingurinn Snorri Rafn William Davíðsson hefur gert það gott í fimleikum á árinu. Hann var nýverið valinn í úrvals- og landsliðshóp unglinga í áhaldafimleikum karla auk þess að vera Íslandsmeistari á bogahesti og í öðru sæti samanlagt á Íslandsmóti FSÍ í fyrsta þrepi en hann hefur unnið til margra verðlauna á árinu.

Snorri Rafn, sem er sextán ára, æfði fimleika með Keflavík í sjö ár áður en hann skipti yfir í fimleikafélagið Gerplu fyrir tveimur árum síðan.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég æfi núna fimleika allt að sex sinnum í viku, fjóra tíma í senn, auk þess að æfa golf og spila á gítar. Ég færði mig yfir í Gerplu þar sem ekki er lengur hægt að sækja æfingar í Keflavík þar sem enginn þjálfari er að þjálfa áhaldafimleika karla. Hjá Gerplu er ég með tvo til þrjá þjálfara sem fylgjast með öllu sem ég geri á æfingum.“

Bogahesturinn í miklu uppáhaldi

Snorri Rafn hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari á bogahesti og einu sinni á stökki en hans uppáhaldsáhald er bogahesturinn. „Mér hefur alltaf gengið vel á bogahestinum en margir vilja meina að það sé erfiðasta áhaldið í fimleikum. Þar skiptir tækni og styrkleiki mestu máli en mér finnst skemmtilegast að prófa nýjar æfingar sem flestir aðrir geta ekki gert.

Á sumrin hef ég alltaf tekið mér frí frá fimleikum og æfi ég þá golf. Nú í sumar fer ég í æfingaferð í fimleikum til Portúgals en það verður í fyrsta skiptið sem ég er ekki í fríi frá fimleikum yfir sumartímann. Auðvitað tek ég golfkylfurnar með en fimleikar og golf passa mjög vel saman, fimleikarnir gera mig sterkari og liðugari sem hjálpar mikið til í golfinu. Báðar íþróttirnar reyna mikið á hausinn á manni en ég er venjulega með stáltaugar og á auðvelt með að keppa. Ég hef keppt í ýmsum öðrum íþróttum frá því ég var lítill eins og skíðum, borðtennis, skák og fótbolta.

Í framtíðinni langar mig að komast á Norðurlandamót eða Evrópumót í fimleikum en ætla mér einnig að ná langt í golfinu. Ég get ekki valið hvor íþróttin mér finnst skemmtilegri en reyni að æfa þær báðar eins lengi og ég get,“ segir Snorri Rafn.