Aðstoðarþjálfari FH tekur við Keflavíkurliðinu
Guðlaugur Baldursson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla Keflavíkur til næstu þriggja ára. Guðlaugur hefur undanfarin fimm ár verið aðstoðarþjálfari hjá Íslandsmeisturum FH ásamt því að stýra afreksþjálfun hjá þeim. Árin 2005-2006 var hann með meistaraflokk karla ÍBV og 2008-2011 með lið ÍR.
Knattspyrnudeild Keflavíkur fagnar komu Guðlaugs og telur hann henta afar vel í það verkefni sem framundan er við að koma Keflavík aftur í fremstu röð. Reynsla og þekking Guðlaugs mun ennfremur nýtast gríðarlega vel í þeirri stefnumótun sem félagið hefur sett af stað undir forystu Margrétar Sanders hjá Strategíu, segir í tilkynningu frá félaginu.
Guðlaugi til aðstoðar verður Eysteinn Húni Hauksson sem kom til starfa hjá knattspyrnudeildinni síðastliðið haust og þekkir afar vel til félagsins sem fyrrum leikmaður og aðstoðarþjálfari.
Eins og kunnugt er hætti Þorvaldur Örlygsson þjálfun liðsins þegar honum var boðin full staða hjá KSÍ sem þjálfari yngri landsliða.