Aðalstjórn Víðis ósátt við vinnubrögð við val staðsetningar á gervigrasvelli
Leggur til að bæjarfulltrúar starfi að heilum hug að uppbyggingu íþróttasvæðis í Suðurnesjabæ með þörf iðkenda að leiðarljósi
Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Víðis hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem m.a. er lýst yfir undrun á að ekki sé búið að hnekkja ákvörðun fyrri meirihluta bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar um staðsetningu gervigrasvallar í Suðurnesjabæ.
Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að reistur yrði æfingavöllur til viðbótar við önnur íþróttamannvirki í sveitarfélaginu en ekki á aðalvöllum félaganna Víðis eða Reynis.
„Við styðjum ekki uppbyggingu keppnisvallar fyrir meistaraflokk Reynis. Endingartími gervigrass, sem notað skal undir keppnisleiki og æfingar allra flokka, allt árið, mun ekki koma til með að vera langur eða fjögur ár,“ segir m.a. í yfirlýsingu aðalstjórnar Víðis en hana má lesa í heild sinni hér að neðan.
Yfirlýsing frá Knattspyrnufélaginu Víði
Stjórn Knattspyrnufélagsins Víðis harmar að nafn félagsins hafi verið notað í pólitískum tilgangi af tveimur bæjarfulltrúum Suðurnesjabæjar við umræður um staðsetningu gervigrasvallar.
Ákvörðun bæjarstjórnar á 70. fundi hennar þann 5. júní sl. hefur ekki verið hnekkt, sem félagið telur undarlegt í ljósi þess að umrædd ákvörðun klauf fyrri meirihluta. Nýr meirihluti tók við en það lítur út fyrir að ekki hafi náðst samkomulag án þess að fyrri ákvörðun fengi að standa. Félagið vill jafnframt koma því á framfæri að ósættið liggur ekki einungis í ákvörðuninni sjálfri heldur vinnubrögðunum sem henni lágu að baki. Það er ámælisvert að ófagleg vinnubrögð sem sprengdi meirihluta bæjarstjórnar fái að viðgangast, og að einu afleiðingarnar séu að fulltrúar færast í annan stól. Ákvörðunin stendur samt sem áður og iðkendur þurfa að gjalda fyrir það.
Félagið vill ítreka að hagur iðkenda á ávallt að ganga framar pólitískum ágreiningi.
Samráðsteymi um uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem skipað var af formönnum Reynis og Víðis, ásamt þremur óháðum aðilum og lykilstarfsmönnum hjá Suðurnesjabæ um uppbyggingu íþróttamála komst að þeirri niðurstöðu að jafnræðis yrði helst gætt með staðsetningu vallarins á gamla malarvellinum við Víðisheimilið. Ákveðið var þó að hunsa þeirra vinnu og lagði bæjarfulltrúi B-lista og þáverandi fulltrúi D-lista til að völlurinn yrði staðsettur á aðalvelli Reynis í Sandgerði með tilbúna tillögu án tillits við hvað samráðsteymið hafði að segja. Þess má geta að fimm bæjarfulltrúar sem búsettir eru í Sandgerði, kusu með þeirri tillögu að hunsa vinnu samráðsteymisins. Þar voru kjörnir fulltrúar ekki að kjósa með hag allra íbúa að leiðarljósi heldur eftir því sem hentaði þeim persónulega. Stjórn félagsins leyfir sér að hafa uppi slíkar vífilengjur vegna óhaldbærra raka um hagkvæmari kost, þar sem heildarkostnaður hefur ekki verið tekinn út.
Félagið hvetur bæjarfulltrúa að fara eftir því sem upprunalega var óskað eftir um í vallaraðstöðu í Suðurnesjabæ, að hann yrði æfingavöllur fyrir yngri flokka allt árið, og meistaraflokka yfir vetrartímann, þar sem hægt er að keppa leiki á veturna þar sem engin krafa er um varamannaskýli, áhorfendastúku eða aðra innviði sem heyrist svo hátt um að þurfi. Við styðjum ekki uppbyggingu keppnisvallar fyrir meistaraflokk Reynis. Endingartími gervigrass, sem notað skal undir keppnisleiki og æfingar allra flokka, allt árið, mun ekki koma til með að vera langur eða fjögur ár eins og talað er um í skýrslunni m.v þessa notkun. Sú umræða komst ekki að, er framangreindir fulltrúar fóru hamförum að reyna styðja ákvörðun sína með rökum um sparnað vegna krefjandi rekstrarumhverfis sveitarfélagsins. Félagið spyr því hvort mögulegur sparnaður sé þess virði ef að skipta þarf um gervigras eftir einungis tæp fjögur ár sökum ofnotkunar.
Þá er vert að taka fram að í skýrslu Verkís kemur fram að ljósamöstur komist hugsanlega ekki alls staðar fyrir, umhverfis völlinn, verði hann byggður í Sandgerði.
Stjórn Knattspyrnufélagsins Víðis óskar hér með eftir því að kostnaður við uppbyggingu gervigrasvallar verði lagður til að jöfnu og að allir kostnaðarliðir verði bornir saman, þ.m.t. kostnaður við að jafna völlinn í Sandgerði, sem hefur talsverðan halla (sjá mynd nr. 1).
Loforð um bætta aðstöðu frá sameiningu sveitarfélagana hefur ekki hlotið hljómgrunn hingað til, þrátt fyrir ákall um lagfæringar á stúku, bætt vökvunarkerfi og bætta æfingaaðstöðu í allan þennan tíma sem eru að hluta til viðhaldsmál og ábyrgð Suðurnesjabæjar að hafa í lagi eru dregnar inn í umræðuna til að reyna að milda umræðuna um vallarmál. Það er ennþá hægt að spara fjármuni með því að setja gervigrasvöllinn í stað fyrir æfingasvæði yngri flokkana, völl fyrir völl á gamla malarvöllinn. Aðstaða félaganna eru ekki að jöfnu eins og allir flokkar skrifuðu um fyrir kosningar að yrði að vera (sjá myndir nr. 2 og 3).
Félagið leggur til að bæjarfulltrúar starfi að heilum hug að uppbyggingu íþróttasvæðis í Suðurnesjabæ með þörf iðkenda að leiðarljósi, við skorum á þau að taka þetta mál aftur upp, fá faglegri vinnubrögð við ákvörðun á æfingasvæði sem er ekki staðsett á aðalvelli annars félagsins.
Aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Víðis