Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Að duga eða drepast fyrir Keflavík í kvöld
Keflavík þarf nauðsynlega á þremur stigum að halda í kvöld
Sunnudagur 19. júlí 2015 kl. 15:18

Að duga eða drepast fyrir Keflavík í kvöld

Chuck og Farid komnir með leikheimild

Í kvöld spila Keflvíkingar við Víkinga í Fossvoginum í leik sem er báðum liðum gríðarlega mikilvægur í botnbaráttu Pepsí deildar karla. Leikurinn er hluti af 12. umferð mótsins.

Fyrri leik liðanna lauk með sigri Víkinga á Nettóvellinum í Reykjanesbæ, 1-3, þar sem að Davíð Örn Atlason, Igor Taskovic og Ívar Örn Jónsson skoruðu mörk Víkinga en Hörður Sveinsson gerði mark Keflvíkinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Talsvert vatn er runnið til sjávar síðan liðin mættust og hafa þjálfarar beggja liða þurft að taka pokann sinn en Ólafi Þórðarsyni var sagt upp störfum hjá Víkingum í vikunni sem leið. Það verður því Milos Milojevic sem mun stýra sínum fyrsta leik sem alráður í þjálfarateymi liðsins í kvöld á meðan hinir geðþekku Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson freista þess að leiða Keflvíkinga út úr þeim öldudal sem að liðið háir nú lífróður í. 

Hinn bandaríski „Chuck“ og Tógó-maðurinn Farid Zato eru báðir komnir með leikheimild með Keflavík og má búast við þeim báðum í hópnum í kvöld. Samuel Jimenez Hernandez verður í leikbanni vegna uppsafnaðra gulra spjalda.

Farid Zato og „Chuck“ á æfingu með Keflvíkingum á dögunum.

Leikurinn hefur heilmikla þýðingu fyrir bæði lið þar sem að Víkingar eru í 10. sæti deildarinnar með 9 stig á meðan Keflavík er í botnsætinu með aðeins 5 stig. Sigur í kvöld yrði gulls í gildi fyrir Keflavík en tap myndi þýða að Víkingar næðu 7 stiga forskoti á þá og gerðu holuna enn dýpri fyrir Keflvíkinga að klifra uppúr.

Leikurinn hefst kl. 19:15 á Víkingsvelli í kvöld.