Á verðlaunapalli í Dubai
Kristjana Gunnarsdótir lenti í þriðja sæti á Best of the Best, sterku þrekmeistaramóti í Dubai um helgina, en hún er margfaldur meistari í íþróttinni hér á landi.
Með henni í för voru þau Helena Ósk Jónsdóttir, sem lenti í 4. sæti, Vikar Sigurjónsson, sem stóð sig vel í sterkum karlaflokki og var um miðjan hóp, og Sigurvin Bergþór Magnússon, sem keppti með þeim í liðakeppni, en þar lentu þau í öðru sæti.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Kristjana að hún væri nokkuð ánægð með árangurinn. „Ég hefði getað gert betur og náð öðru sætinu, en ég er samt nokkuð sátt. Við höfum öll náð betri tíma í brautinni hér heima, en hitinn var erfiður.”
Kristjana bætti því við að aðbúnaður hafi verið hinn besti og þeim hafi þegar verið boðið að taka þátt í mótinu að ári. Einnig er möguleiki að þau reyni frekar fyrir sér í keppnum erlendis en það komi í ljós síðar, enda mikið mál að skipuleggja keppnisferðir og kunna þau stuðningsaðilum sínum bestu þakkir fyrir að gera ferðina að möguleika.