Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Á þriðja hundrað hjóluðu í logni og hita
Þriðjudagur 29. maí 2018 kl. 11:14

Á þriðja hundrað hjóluðu í logni og hita

Fyrsta götuhjólamót sumarsins á Reykjanesi fór fram á uppstigningardag. Mótið var haldið af þríþrautadeild UMFN, 3N, í samstarfi við Nettó, sem er aðal styrktaraðili mótsins. Hjólaðar voru þrjár mismunandi vegalengdir, 32 km, 63 km og 106 km sem eru hluti af bikarmótaröð HRÍ í götuhjólreiðum. Á þriðjahundrað manns tóku þátt í keppninni.

Mótið hófst og endaði í Sandgerði. Allar vegalengdir hjóluðu frá sama stað áleiðis út á Reykjanes. Þeir sem fóru stystu vegalengdina hjóluðu að Hafnarvegi og til baka, þeir sem fóru 63 km hjóluðu að Reykjanesvirkjun og sömu leið til baka en þeir sem hjóluðu lengst fóru til Grindavíkur og alla leið upp á Festarfjall, þaðan hjóluðu keppendur sömu leið til Sandgerðis.
Mótið átti upphaflega að vera þann 6. maí en því var frestað vegna veðurs, í staðinn fengu keppendur að kynnast logni, frekar sjaldgæfu, og tæplega 10 stiga hita.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í 32 km vegalengdinni voru sigurvegarar: Björgvin Pálsson, Víkingi, í karlaflokki og Guðlaug Sveinsdóttir, 3N, í kvennaflokki. Í 63 km var mikil barátta í karlaflokki og endaði Davíð F. Albertsson, Tindi, sem sigurvegari eftir harðan endasprett. Í kvennaflokki hafði Karen Axelsdóttir, Tindi, nokkra yfirburði.

106 km var sem fyrr segir hluti af bikarmóti HRÍ. Þar höfðu þeir Ingvar Ómarsson Breiðabliki og Hafsteinn Ægir Geirsson HFR nokkra yfirburði, hjóluðu tveir saman frá snúningspunkti á Festarfjalli og í mark þar sem Ingvar hafði betur á endasprettinum. Í kvennaflokki hafði Ágústa Edda Björnsdóttir, Tindi, mikla yfirburði, hjólaði reyndar ein frá snúningspunkti.

Því miður urðu þrjú óhöpp í keppninni en enginn slasaðist þó alvarlega en eitthvað tjón varð á hjólum. Það gefur keppnishöldurum tilefni til að bæta enn betur umgjörðina um mótin, sem fara stækkandi með hverju árinu og ekki síður fyrir þátttakendur að undirbúa sig vel fyrir keppni og muna að hafa öryggið ofar keppnisskapinu, segir í frétt frá mótshöldurum í 3N.