Á hliðarlínunni til frambúðar
Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari Keflavíkurkvenna í knattspyrnu, leikur ekki meira með Keflavíkurliðinu né öðru liði en hún sleit krossbönd í hné á Íslandsmótinu innanhúss í desember síðast liðinum. Ásdís á glæstan knattspyrnuferil að baki og varð margfaldur Íslandsmeistari með KR en hún er á meðal reyndustu knattspyrnukvenna þjóðarinnar. Ásdís mun því stýra Keflavík af hliðarlínunni í sumar en liðið hefur átt erfitt uppdráttar í deildarbikarnum.
Keflavíkurliðið er í næst neðsta sæti eftir þrjá tapleiki með markatöluna 2:19 í deildarbikarnum en FH situr á botninum án stiga með markatöluna 0:21. Liðin mætast í kvöld í deildarbikarnum kl. 20:30 að Ásvöllum í Hafnarfirði.
Nokkur mannekla er í Keflavíkurliðinu þar sem þær Ágústa Jóna Heiðdal, Hrefna Magnea Guðmundsdóttir og Sunna Gunnarsdóttir munu ekki leika með Keflavík á næstu leiktíð en þær voru á meðal lykilleikmanna liðsins á síðustu leiktíð. Þá er óvíst hvort Björg Ásta Þórðardóttir verði tilbúinn í slaginn þegar Landsbankadeildin hefst en hún sleit krossbönd á síðustu leiktíð.
„Við höfum verið að keyra mikið á ungum leikmönnum í deildarbikarnum en bilið frá yngri flokkunum upp í meistaraflokk er mjög stórt hjá okkur. Yngri stelpurnar verða að vilja og þora að komast í meistaraflokkinn og vilja æfa með þeim bestu,“ sagði Ásdís í samtali við Víkurfréttir. Þær Donna Cheyne og Vesna Smiljkovic eru komnar til liðs við Keflavík að nýju en þær léku með liðinu á síðustu leiktíð. „Nína Ósk og Guðný Petrína hafa átt við bakmeiðsli að stríða að undanförnu og Ólöf Helga er meidd eins og stendur og nýkomin frá tímabili í körfuknattleik svo og ég sé fram á að liðið þurfi að bæta við sig fleiri erlendum leikmönnum fyrir átökin í sumar,“ sagði Ásdís að lokum en hún var vongóð um að liðið myndi ná að slípa sig vel saman áður en Landsbankadeildin færi af stað.
VF-mynd/ JBÓ: Ásdís í baráttunni um boltann í leik gegn Valskonum á síðustu leiktíð