Á FORSÍÐU DAGATALS WATFORD
Jóhann B. Guðmundsson er enn á skotskónum hjá Watford á Englandi og er svo sannarlega kominn inn á kortið. Hann prýðir m.a. forsíðu dagatals Watforf fyrir árið 1999.Jóhann Guðmundsson sem nú leikur með 1. deildarliðinu Watford á Englandi hefur verið í eldlínunni að undanförnu en hann byrjaði sem kunnugt er með stæl þegar hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta heila leik með liðinu fyrir stuttu. Jói eða Guddi eins og hann er kallaður hefur síðan í þessum stórleik verið í og úr Watford liðinu. Um síðustu helgi var hann á bekknum og kom ekki inn á gegn Stockport. Helgina þar á undan var hann í byrjunarliði gegn Oxford og lagði upp bæði mörk liðins í 2:0 sigri. En af hverju var hann þá ekki í byrjunarliðinu um síðustu helgi. „Ja, þú segir nokkuð. Það er ekki gott að segja. Ég hef reyndar fengið þær skýringar frá framkvæmdastjóranum að hann vilji ekki nota mig gegn liðum sem eru þekkt fyrir grófa knattspyrnu, svona eins og Stockport og reyndar fleirum“.Þannig að þú ert ekkert að örvænta?„Ég hef enga ástæðu til þess þó svo ég sé ekki alltaf í byrjunarliðinu. Það er ekki hægt að ætlast til að ég sigri heiminn. Ég er bara nýkominn hingað“.Jóhann lék með varaliði Watford á mánudagskvöldið gegn utandeildarliði og skoraði eitt mark í 6:0 sigri. Hann fékk þó skilaboð þess efnis að þó hann hafi leikið með varaliðinu væri hann ekki endilega úr hópnum fyrir leikinn gegn Crewe Alexandra næstu helgi. Varaliði Watford hefur gengið vel í deildarkeppninni og er í 2. sæti, fyrir ofan Lundúnarisana Arsenal og Tottenham en varaliðskeppnin fer fram eftir svæðum, ekki deildum. Watford er í suður-hluta Englands með Lundúnaliðunum.Þannig að þú ert þokkalega hress. Getur náttúrlega ekki verið annað?„Ég er mjög hress og sáttur við mitt hér í Englandi, nýfluttur í íbúð sem er rétt hjá vellinum þannig að það er allt í fínu lagi. Svo hefur Eysteinn Hauksson vinur minn verið hér í heimsókn undanfarna daga“.Þú ert flottur á 1999 dagatali Watford og myndir af þér um allt í leikskrám liðsins!„Já, finnst þér ekki. Það var mjög gaman. Þetta fljúgandi start hefur komið mér á kortið hérna.“ Þú skorar kannski eitt fyrir okkur hér heima í næsta leik?„Já, hvernig væri það“, sagði Jói að lokum og bað að heilsa.