Á annað þúsund blakarar rokka í Reykjanesbæ - myndir
Vel annað þúsund manns sækja öldungamót í blaki í Reykjanesbæ og ber heitir „Rokköld í Reykjanesbæ“. Öldungamót Blaksambands Íslands er haldið í fyrsta skiptið hér í bæ en mótið er haldið í samstarfi við blakdeild Þróttar í Reykjavík sem hefur reynslu af skipulagningu slíkra móta.
Öldungamótið í blaki er eitt af stærstu íþróttamótum landsins ár hvert og eru þátttakendur um 1.400 sem koma alls staðar að af landinu. Um 165 karla- og kvennalið mæta og er mótið fyrir 30 ára og eldri. Vel skipulögð skemmtidagskrá er í boði fyrir þátttakendur alla keppnisdaga. Langflestir þátttakendur gista í bænum frá 24.-28. apríl og munu á þeim tíma án efa nýta sér alla þjónustu og afþreyingarmöguleika sem Reykjanesbær hefur upp á að bjóða.
Víkurfréttir litu við í Reykjaneshöll og mynduðu rokkara eins og sjá má í meðfylgjandi myndasafni. Einnig verður innslag í Suðurnesjamagasíni, Sjónvarpi Víkurfrétta fimmtudaginn 2. maí þar sem sýnt verður frá snilli blakaranna sem flestir eru kvenkyns.