99. leikur Njaðvíkur og Keflavíkur í kvöld
- Njarðvík verður að sigra til að koma í veg fyrir sumarfrí
Annar leikur Njarðvíkur og Keflavíkur í átta liða úrslitum Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik er í kvöld kl. 19:15 í Ljónagryfjunni. Með sigri í kvöld geta Keflvíkingar tryggt sér farseðilinn í 4 liða úrslitin. Njarðvíkingar vilja ekki láta það gerast og hafa sent út útkall til sinna stuðningsmanna um að fjölmenna á leikinn og vonast til að áhorfendur troðfylli Ljónagryfjuna og skapi gamalkunna stemningu eins og hún gerist best. „Ekki láta það fréttast stuðningsmaður góður að þú hafir setið heima þriðjudagskvöldið 17. mars 2009,“ segir í ákallinu til stuðningsmanna Njarðvíkur.
UMFN hafa tapað 6 leikjum í röð í úrslitakeppninni og ekki sigrað síðan í leik eitt í lokaúrslitum gegn KR árið 2007. „Ljóst er að okkar menn eru með bakið upp við vegg í kvöld og verða að sigra til þess að tryggja sér oddaleik í Keflavík. Leikurinn í kvöld er 99 opinberi leikur UMFN og Keflavíkur frá upphafi og verður fróðlegt að sjá hvort okkar menn sigri og tryggi sér 100 leikinn á föstudaginn! Nú verða allir að leggjast á eitt og sjá til þess að sigri verði landað í kvöld!“ segir á vef UMFN.
Leikurinn hefst kl 19:15 og er fólk hvatt til þess að mæta tímanlega.
Unglingaráð UMFN er með kræsingar til sölu fyrir leik, pizzur og annað góðmeti svo það er um að gera að kíkja hálftíma fyrr og fá sér í gogginn.