8 liða úrslitin: Baráttan heldur áfram í kvöld
Grindvíkingar taka á móti Snæfelli í kvöld í 8 liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik og Njarðvík mætir Stjörnunni. Að venju fara leikirnir fram kl. 19:15.
Úrslitakeppnin hófst í gær með leik Keflavíkur og Tindastóls þar sem Keflavík vann öruggan sigur. KR-ingar tóki á mót ÍR og höfðu betur.
Í 8-liða úrslitum úrvalsdeildar þarf að vinna tvo leiki til þess að komast áfram í undanúrslit og því geta leikirnir flestir orðið þrír í hverju einvígi í þessari fyrstu umferð.
Þetta er þriðja árið í röð sem Grindavík mætir Snæfelli í úrslitakeppninni. Fyrir tveimur árum hafði Snæfell betur í viðureigninni en Grindvíkingar launuðu þeim lambið gráa og sigruðu með yfirburðum í fyrra. Eftir nokkurt mótlæti á fyrri hluta keppnistímabilsins hafa Grindavíkingar sýnt mátt sinn undanfarið og eru til alls líklegir.
Njarðvíkingar höfnuðu í fimmta sæti deildarkeppninnar með jafnmörg stig og Stjarnan. Að því gefnu að stigataflan segi til um styrk liðanna má búast við hörkuviðureign í einvígi þessara liða.