51 stig frá Bullock í rafmögnuðum leik
Giordan Watson gerði út um ÍR í gærkvöldi en það var J´Nathan Bullock sem bar Grindavík á herðum sér og tryggði tvö stig þegar topplið Grindavíkur rændi tveimur stigum af ÍR í Hellinum. Bullock splæsti í 51 stig í og 14 fráköst og fékk fyrir vikið 53 framlagsstig sem er það hæsta sem nokkur leikmaður í deildinni hefur náð þetta tímabilið! ÍR-ingar hafa fullt leyfi til að vera súrir í bragði enda var þetta rán af verstu sort, ÍR leiddi í rétt rúmar 39 mínútur í leiknum áður en Watson stal sigrinum með stökkskoti innan teigs um leið og lokaflautið gall.
Grindavík hefur nú sex stiga forskot á toppi deildarinnar með 26 stig en ÍR situr í 7. sæti með 12 stig eins og Fjölnir, Tindastóll og Njarðvík.
Heimamenn í ÍR mættu rauðglóandi til leiks þar sem Nemanja Sovic og Robert Jarvis voru að fífla Grindavíkurvörnina. Kristinn Jónasson kom ÍR í 27-12 með körfu í teignum og villu að auki og ÍR leiddi svo 37-25 að loknum fyrsta leikhluta. Þess má geta að téður Bullock gerði 17 fyrstu stig Grindavíkur í leiknum og tvö af þeim komu í allsvakalegri troðslu í fyrsta leikhluta og þær áttu eftir að verða fleiri.
Helgi Jónas Guðfinnsson leggur mikið upp úr varnarleik en hann var ekki að sjá í fyrsta leikhluta svo gulir hafa fengið orð í eyra og hlustuðu enda skoruðu ÍR-ingar bara 17 stig í öðrum leikhluta. Staðan 54-41 í hálfleik. Annar leikhluti einkenndist af miklum átökum og menn ætluðu að selja sig dýrt, Ellert Arnarson átti fínar rispur í liði ÍR í fyrri hálfleik en þeir Sovic og Jarvis sáu um stigaskorið, Sovic með 18 í hálfleik og Jarvis með 11.
Hjá Grindavík var J´Nathan Bullock með 25 stig í hálfleik og næsti maður, Páll Axel, var með sex stig. Bullock var s.s. allt í öllu hjá Grindavík í fyrri hálfleik og átti bara eftir að herða róðurinn í síðari hálfleik.
Ellert Arnarson kom ÍR í 58-45 með þrist snemma í þriðja leikhluta en gulir nálguðust óðfluga og náðu að minnka muninn í 66-60. Enginn varnarmaður ÍR virtist geta hamið nautið Bullock og forysta heimamanna var ekki sprottin af sterkum varnarleik heldur góðum sóknarleik sem hefur verið sterkari hlið ÍR þetta tímabilið.
Eiríkur Önundarson minnti svo á sig undir lok þriðja leikhluta þegar hann setti þrist og fékk villu að auki um leið og lokaflautið gall, fjögur stig í hús enda kempur í klassa Eiríks ekki þekktar fyrir að misnota víti þegar fjögur stig eru í boði. ÍR leiddi 76-64 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Það verður tekið sérstaklega hér fram að Níels Dungal var afar sterkur fyrir ÍR í leiknum í kvöld og ávallt mikið að gera í kringum þennan leikmann í bæði vörn og sókn. Ef hann nær sér á gott skrið mun það hafa bein áhrif á gengi ÍR í deildinni.
Eiríkur reynslubolti Önundarson var ekki einn um að minna á sig í leiknum. Þegar mest á reyndi steig Páll Axel Vilbergsson vel upp í liði Grindavíkur. Páll minnkaði muninn í 76-67 með þriggja stiga körfu og átti síðar eftir að leggja góðan grunn að Grindavíkursigri.
ÍR byrjaði fjórða leikhluta á því að skjóta aðeins þriggja stiga skotum og erfiðum skotum gegn ákveðinni vörn Grindavíkur. Robert Jarvis fór þar fremstur í flokki og var oftar en ekki full bráður á sér.
J´Nathan Bullock hélt áfram í ,,bullinu“ svokallaða. Ef hann fékk boltann lauk því atriði í 99,99$% tilfella, eða svo virtist þannig vera að minnsta kosti. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka jafnar Páll Axel fyrir Grindavík með þrist, 80-80. Aftur jafnar Páll í 85-85 með annarri þriggja stiga körfu og þegar 50 sekúndur voru til leiksloka kemur Páll gulum í 85-88... með hverju öðru en þriggja stiga körfu!
Sovic minnkaði muninn í 87-88 með körfu í teignum, næsta Grindavíkursókn fór forgörðum og Robert Jarvis kemur ÍR í 89-88 þegar 6,4 sekúndur voru til leiksloka og stemmningin í Hellinum með mesta móti enda bráðfjörugur leikur í gangi.
Grindavík tók leikhlé, Watson fékk boltann og Jarvis braut snemma á honum, 4,3 sekúnudur eftir. ÍR komið með fjórar liðsvillur og máttu ekki brjóta aftur. Þorleifur Ólafsson tók innkastið og gaf aftur á Watson sem brunaði út á hægri vænginn, enginn þorði að snerta manninn svo hann steig eitt skref inn fyrir þriggja stiga línuna og vippaði sér upp í erfitt skot. Ekkert nema net!
ÍR 89-90 Grindavík og gestirnir fögnuðu innilega á meðan heimamenn í ÍR voru skiljanlega niðurbrotnir eftir þessi málalok. ÍR hafði leikinn í höndum sér en frábært einstaklingsframtak Bullock og myndarlegar innkomur Watson og Páls Axels á ögurstundu tryggðu tvö stig suður til Grindavíkur.
Hjalti Friðriksson lék ekki með ÍR sökum veikinda og þá kom Ryan Pettinella ekkert við sögu í liði Grindavíkur sökum smávægilegra meiðsla á fæti. Fjarvera þessara ágætu manna kom þó ekki að sök og boðið var upp á frábæran leik og ljóst að nú finna menn lyktina af úrslitakeppninni og ekki loku fyrir það skotið að verið sé að stíga á kúplingar og skipta í hærri gír.
Umfjöllun Karfan.is