Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

5-2 sigrar hjá Reyni og Njarðvík
Fimmtudagur 28. júlí 2011 kl. 11:19

5-2 sigrar hjá Reyni og Njarðvík

Njarðvíkingar höfðu sigur á toppliði Hattar í 2. deild 2-5 á Egilsstöðum í gær. Sömuleiðis unnu Sandgerðingar sinn leik 5-2 er þeir fengu Völsung í heimsókn.

Fyrirfram var búist við erfiðum leik hjá Njarðvíkingum enda topplið deildarinnar sótt heim. Varnarmaðurinn Einar Marteinsson sem hefur verið duglegur við að skora í sumar kom Njarðvíkingum yfir með skalla eftir 38 mínútur og þannig var staðan í hálfleik. Ísleifur Guðmundsson kom Njarðvíkingum í 0-2 með öðru skalla marki í byrjun síðari hálfleiks og Gísli Freyr bætti öðru marki við skömmu síðar.

Fyrirliðinn Einar Valur Árnason kom Njarðvík í 0-4 eftir tæplega klukkutíma leik og sigur nánast í höfn fyrir gestina úr Njarðvík. Hattarmenn minnkuðu muninn með tveimur mörkum og Njarðvíkingar misnotuðu vítaspyrnu áður en Andri Fannar Freysson setti rjómann á kökuna með fimmta marki Njarðvíkinga og lokatölur því 2-5.

Sandgerðingar voru ekki lengi að skora gegn Völsungi en Guðmundur Gísli Gunnarsson skoraði eftir aðeins tveggja mínútna leik á N-1 vellinum í gær. Gestirnir jöfnuðu eftir 25 mínútur en Sandgerðingar svöruðu með þremur mörkum í röð. Fyrst skoraði Vignir Benediktsson og Guðmundur Gísli bætti við öðru marki sínu. Jóhann Magni lagði sitt af mörkum áður en Völsungar minnkuðu muninn og staðan var því 4-2 fyrir heimamenn í leikhléi.

Síðari hálfleikur náði aldrei sömu hæðum og sá fyrri og gestirnir ætluðu sér svo sannarlega ekki að leyfa Reyismönnum að skora meira. Það fór þó svo að lokum að Sigurður Gunnar Sævarsson bætti við fimmta markinu fyrir Reyni og stórsigur 5-2 staðreynd.

Staðan í 2. deild

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024