40 manns á fimleikaæfingu fyrir fullorðna
Fimleikadeild Keflavíkur býður þessa dagana uppá 4 vikna fimleikanámskeið fyrir fullorðna. Opinn kynningartími var haldinn í íþróttaakademíunni í gærkvöldi þar sem hvorki meira né minna en 40 manns létu sjá sig.
Að sögn Brynju Rúnarsdóttur, aðalþjálfara námskeiðsins, var mætingin framar björtustu vonum. Farið er í grunnþætti fimleika eins og þrek og liðleika í bland við æfingar á hinum ýmsu áhöldum. Óhætt er að segja iðkendur hafi skemmt sér konunglega og þá sáust mörg glæsileg tilþrif þótt margir hafi aldrei stigið fæti inn í fimleikasal áður. Meginmarkmið námskeiðsins sé þó að bjóða uppá fjölbreytta og skemmtilega hreyfingu fyrir fullorðna.
Æfingarnar verða öll þriðjudags- og fimmtudagskvöld í íþróttaakademíunni og geta áhugasamir skráð sig á síðu fimleikadeildar Keflavíkur www.keflavik.is/fimleikar og er þar að finna frekari upplýsingar um námskeiðið.