Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðjudagur 13. ágúst 2002 kl. 11:07

4. flokkur Keflavíkur stóð sig ágætlega á Dana-Cup

4.flokkur karla í knattspyrnu frá Keflavík tók þátt í Dana Cup 2002 dagana 22 – 27 júlí s.l. Dana Cup er haldið í bænum Hjörring sem
er staðsettur á Norður Jótlandi í Danmörku. Það má geta þess að Hjörring er vinabær Reykjanesbæar og hér áður fyrr var hefð fyrir því að senda Keflavík (4.flokk) á vinabæjarmót. Það muna eflaust margir eldri knattspyrnumenn eftir þessu móti. Strákarnir stóðu sig mjög vel og komust í 36-liða úrslit þar sem þeir féllu úr leik gegn Braatens frá Svíþjóð.Albert Eðvaldsson var svo heppinn að fá að fara sem fararstjóri 4. flokks til Danmerkur en Magnús Daðason og Gunnlaugur Kárason (þjálfari) voru með honum í för. Í þessum pistli stiklar Albert á stóru um þessa frábæru keppnisferð.

Það er Fortuna Hjörring sem er mótshaldari og var þetta í 21. skiptið sem mótið var haldið. Í ár var metþátttaka, 20 þúsund þátttakendur frá 46 þjóðlöndum bæði stúlkur og drengir. Alls voru 839 lið skráð
til keppni. Liðunum var skipt niður í aldursflokka frá 11-19 ára . Keppt var á 85 knattspyrnuvöllum víðsvegar um bæinn og einnig í nágrannabyggðarlögum. Mótið var ótrúlega vel skipulagt og gaman
að sjá hvað hægt er að gera þegar allir leggjast á eitt jafnt ungir sem aldnir.

Undirbúningur ferðarinnar hófst strax á haustmánuðum 2001, þegar byrjað var að kanna möguleika á æfinga- og keppnisferð. Skapast hafði hefð fyrir því að 4.flokkur færi erlendis annað hvert ár. Mikill áhugi var fyrir því að að halda til Bretlands, nánar tiltekið í Knattspyrnuskóla Bobby Charlton. En vegna hve gengi pundsins var óhagstætt var ákveðið að skoða aðra möguleika. Á einum af mörgum undirbúningsfundum foreldra var tekin samhljóma ákvörðun um að senda strákana til Danmerkur á Dana Cup eftir að hafa borið saman nokkra aðra möguleika.

Strax var hafist handa við fjáröflun og var hópurinn duglegur að næla sér í verkefni, þar má meðal annars nefna hreinsun Neðra – Nikkel svæðissins og hreinsun á svæði Flugmálastjórnar umhverfis Leifsstöð. Einnig var hefðbundnum fjáröflunarleiðum beitt. Hópurinn var einstaklega vel samstilltur í þessum verkefnum og gerði hópinn enn samheldnari en hann hafði verið.

Svo rann upp stundin sem strákarnir höfðu beðið eftir. Mætt var í Leifstöð laugardaginn 20. júlí. Mikil eftirvænting var hjá hópnum sem samanstóð af 21. leikmanni, þjálfara og 2 fararstjórum. Lent var á Kastrup flugvelli kl. rúmlega 22 og vel gekk að koma öllum farangri í rútuna, að vísu skilaði ein taskan sér ekki og tafði það okkur örlítið. Komið var á gistiheimili rétt fyrir utan Kaupmannahöfn kl. 23:30 þar var hópnum skipt niður í herbergi 5-6 saman. Ekki var mikið sofið þessa nótt þar sem eftirvæntingin um framhaldið var mikil. Eftir nokkra klukkustunda svefn (hvíld) var farið í morgunmat og síðan haldið í Tivolí. Í Tivolí skemmtu strákarnir sér í nokkrar klukkustundir áður en haldið var með rútu til Hjörring. En áður en í rútuna var haldið var boðið til afmælisveislu á McDonalds, en það vildi svo skemmtilega til að einn drengurinn varð 13ára þennana sunnudag. Það voru því þreyttir en ánægðir strákar sem settust upp í rútuna.

Til Hjörring komum við rúmlega 22 og vel gekk að koma okkur fyrir. Gistum við í skóla (Muldbjergskolen) sem var einstaklega vel staðsettur. Þess má geta að betur gekk að sofna þetta kvöld. Ferðataskan sem týndist skilaði sér til Hjörring á mánudeginum og voru strákarnir einstaklega glaðir því þá gat viðkomandi loksins skipt um nærföt. Mánudeginum var eytt í að kynnast staðnum og ganga frá pappírum vegna þátttöku okkar í mótinu. Um kvöldið var mótið formlega sett á aðalleikvangi bæjarins. Við tókum þátt í skrúðgöngu, þar sem fulltrúar liða gengu í gengnum bæinn sem endaði á leikvanginum þar sem allir bæjarbúar tóku á móti okkur. Það var lið frá Ghana sem hélt uppi fjörinu í skrúðgöngunni dönsuðu og sungu sleitulaust alla leiðina. Liðin gengu fylktu liði hring á vellinum og enduðu uppi á sviði þar sem þau voru kynnt. Borgarstjóri Hjörring Bent Brown hélt tölu og síðan var það fyrrum landsliðsmaður Dana og leikmaður Chelsea Jes Högh sem setti mótið formlega. Að lokum kom fulltrúi frá hverri þjóð og setti mótið á sýnu móðurmáli og að sjálfsögðu vorum við með okkar fulltrúa, Gísla Örn Gíslason, sem bætti “Árfram Keflavík” við setninguna.

Þriðjudaginn 23 júlí hófst keppnin og strákarnir öttu kappi við lið sem keppti undir fána Bangladesh en komu frá London og bar nafnið YAS. Við stóðum okkur vel en töpuðum 1-0. Vörnin okkar var frábær í þessum leik. Andstæðingar okkar voru líkamlega sterkari en okkar menn. Einn okkar manna sagði við mig “ Þessi þarna stóri er örugglega 17-18 ára, hann er byrjaður að raka sig”.

Miðvikudaginn 24 júlí kepptum við tvo sögulega leiki. Þann fyrri gegn Runar frá Noregi, unnum við 3-2 eftir að hafa verið undir 1-2 þegar 10mín voru eftir en Þorsteinn Þorsteinsson skoraði tvö mörk undir lokin eftir að Björgvin Magnússon hafði komið okkur yfir í fyrri hálfleik. Seinni leikurinn var við Limhamn frá Svíðþjóð og aftur var það spennuþryllir af bestu gerð. Við lentum 1-0 undir en Þorsteinn jafnaði enn og aftur undir blálokin og 2 sætið komið í höfn. Frábær árangur, komnir í A-úrslit mótsins þar sem 36 lið leika til þrautar. Fimmtudaginn 25 júlí hófst keppni í A-úrslitum. Við lentum á mótu ágætu sænsku liði Braatens og dómara frá USA. Leikurinn endaði 3-0 fyrir þá sænsku í leik sem dómarinn lék aðalhlutverkið og við þar með úr leik.

Frábær árangur hjá strákunum sem komu þjálfara og fararstjórum að óvörum með góðum leik sem einkenndist af baráttu og vilja. Það má geta þess að í okkar hópi eru flestir 13ára(f.1989) en við spiluðum í flokki 14ára (f.1988).

Það var ekki bara spilaður fótbolti þessa vikuna. Þarna var búið að koma upp Tivolíi og tjöldum þar sem hægt var að gera góð kaup á sportvörum, geisladiskum svo eittvað sé nefnt. Einnig var Discó öll kvöldin og þar skemmtu strákarnir sér við “Tecno” tónlist af bestu gerð. Þarna voru að sjálfsögðu fullt af stúlkum og voru strákarnir, flestir, að stíga sín fyrstu skref í nálgun við þær, með dyggri aðstoð þeirra reyndari. Heyrðist til þeirra beita setningum eins og “Du har smukke ojne” og “Du er meget sød”. Þarna kom berlega í ljós að dönskukennslan í skólum Reykjanesbæar er að virka!

Á Föstudeginum var spilaður æfingaleikur við Norskt lið og strákarnir fengu síðan að “chilla”. Um kvöldið var síðan glæsileg flugeldasýning. Laugardaginn 27 júlí voru úrslitaleikirnir spilaðir og má geta þess að KR-1 (14ára) komust alla leið í úrslitaleikinn en töpuðu þar fyrir úrvalsliði frá Ghana (Frankfurt Babi) 2-4. Frábær árangur hjá þeim svört/hvítu.

Haldið var heim á leið sunnudaginn 28 júlí eftir vel heppnaða viku.

Það skal tekið fram að þessi fríði hópur var bæarfélagi okkar til mikils sóma, utan sem innan vallar. Drengirnir voru til fyrirmyndar í öllu sem þeir tóku sér fyrir og gaman að verða vitni af því hvernig “unglingar” láta ljós sitt skína.

Að lokum vill undirritaður, fyrir hönd 4.flokks Keflavíkur, koma þökkum til allra þeirra aðila sem styrktu þá til ferðarinnar.

Það er leitt að bæarfélag eins og Reykjanesbær sjái sér ekki fært að styrkja þetta málefni, þar sem beiðni okkar var hafnað. Það er athyglisvert að ekki sé til fjármagn til slíkra málefna. Það er nú á þessum aldri sem brottfall verður hvað mest og telja mætti að slíkum fjármunum sé vel varið ef keppnisferð af þessu tagi virki hvetjandi og verði til þess að færri hellast úr lestinni. Íþróttaiðkun af einhverju tagi er eins og við vitum öll eitt besta forvarnarverkfærið sem við höfum yfir að ráða.

Það má geta þess að fimmtudaginn 15. ágúst spila strákarnir lokaleikinn á Íslandsmótinu og leika þeir við Selfoss. Hefst leikurinn kl. 17 (Iðavöllum).


Albert Eðvaldsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024