Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

20 stiga sigur í Keflavík
Fimmtudagur 21. janúar 2010 kl. 09:23

20 stiga sigur í Keflavík

Ljóst er að kvennalið Keflavíkur í IE-deildinni í körfuknattleik spilar í A-riðli. Það skýrðist í gærkvöldi þegar þær tóku á móti liði Hauka í Toyotahöllinni og sigruðu með 20 stiga mun, 85-65.

Keflavíkurstúlkur mættu ákveðnar til leiks og náðu strax 10 stiga forskoti. Haukastúlkur sáu að við svo búið mátti ekki standa, tóku duglega á því og komust aftur inn í leikinn. Aðeins tvö stig skildu á milli liðanna í lok fyrsta leikhluta.

Keflavíkurliðið hafði undirtökin í öðrum leikhluta. Haukar áttu engin svör við stórleik Keflavíkur sem gekk til hálfleiks með 18 stiga forystu.
Lið Hauka var hins vegar ekkert á því að gefast upp og lét finna fyrir sér í þriðja leikhlutanum. Þær náðu að minnka muninn niður í 9 stig og virtust alveg geta sett meiri spennu í leikinn.

Keflavíkurliðið svaraði þessari orrahríð með grimmum varnarleik sem reyndist gestunum ofraun.  Mikið púður fór í baráttuna við að komast aftur inn í leikinn og um miðjan fjórða leikhlutann var úthald Hauka á þrotum. Því fór sem fór og 20 stiga sigur Keflavíkur var staðreynd í lokin.
Kristi Smith var stigahæst í liði Keflavíkur með 28 stig. Bryndís Guðmundsdóttir átti einnig góðan leik með 15 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar. Birna Valgarðsdóttir lét ekki sittt eftir liggja, skilaði 19 stigum á töfluna og sendi 8 stoðsendingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

---

VFmynd - Birna Valgarðs átti fínan leik með Keflavík í gær.