2.deild m.fl.kk Lokaumferð Íslandsmótsins
Víðismenn leika á móti Aftureldingu á morgun kl.14:00. Það er jafnframt síðasti leikur Víðismanna í Íslandsmótinu.
Reynir í Sandgerði á leik gegn ÍR kl.14. og þurfa stig úr þeim leik til að vera öruggir með áframhaldandi veru í 2.deild.
Knútur Rúnar Jónsson, fyrirliði Víðis sagði, að það væri mjög svekkjandi að leikurinn á morgun væri ekki úrslitaleikur. „Við erum búnir að fá mörg tækifæri í sumar til að ná Aftureldingu en vantað herslumuninn. Við erum búnir að vera í þriðja sæti nánast í allt sumar eða síðan í 4 umferð.“ Afturelding er í öðru sæti í deildinni og fylgir ÍR-ingum upp í 1.deild að ári.
„Við vorum nýliðarnir í deildinni og árangurinn er góður miðað við það en þetta eru samt mikil vonbrigði, það hefði verið gaman að fara upp um deild.“
Víðisliðið er skipað að mestu strákum sem hafa spilað saman í 4-5 ár. „Við styrktum liðið með þremur erlendum leikmönnum.“ Knútur sagði að ekkert annað kæmi til greina en að vinna Aftureldingu á morgun og enda þannig tímabilið með sigri.
Steinar Örn Ingimundarson, þjálfar Víðis, var vonsvikinn eftir leik Víðismanna og Tindastóls síðustu helgi en þar var Slavisa Mitic leikmanni Víðis vísað af velli með rautt spjald á 35 mínútu. Að mati Steinars var það óréttmætur dómur sem hafði mikil áhrif á gang leiksins. „Vonbrigðin eru töluverð eftir að vera svona nálægt því að spila úrslitaleik við Aftureldingu um veru í 1 deild. Á næsta ári lítur út fyrir að Víðir, Njarðvík og Reynir Sandgerði spili öll í 2.deild en liðin í deildinni dreifast um allt land og það fer mikill tími í ferðalög til að komast í leiki.
Knútur Rúnar sagði að álagið í sumar hefði verið gífurlegt á leikmenn liðsins. Það er spurning að hans mati hvort réttmætt hafi verið að fjölga úr tíu liðum í tólf eins og var gert fyrir þetta tímabil. Það fer svo mikill tími í ferðalög að ekki er mikið um frítíma á milli leikja.
Reynismenn róa nú lífróður fyrir veru sinni í 2.deild. Á heimasíðu Reynis eru allir hvattir til að mæta í Breiðholtið og styðja við bakið á strákunum.
Það verður mikið um dýrðir á ÍR-vellinum á morgun þegar heimamenn taka við verðlaunum sínum sem meistarar í 2. deild. Reynismenn ætla að verða fyrsta liðið til að ná stigum af ÍR-ingum á heimavelli þeirra í sumar segir á heimasíðu Reynis.
Reynismenn þurfa að ná í stig í Breiðholtið til að tryggja veru sína í 2. deildinni að ári. Tapi Reynir fer það eftir úrslitum í öðrum leikjum hvort að fallið verði hlutskipti Sandgerðinga.