19-0 hjá stelpunum
Í gærkvöldi sigruðu Keflavíkurstúlkur lið UMF Bessastaða 19-0 á heimavelli. Það skal tekið fram að ekki var um handboltaleik að ræða. Með sigrinum endurheimti lið Keflavíkur 1. sætið í A-riðli 1. deildar kvennaknattspyrnunnar. Keflavík var nánast allan leikinn í sókn en þau voru teljandi á fingrum annarar handar skiptin sem lið Bessastaða náði að komast yfir sinn eigin vallarhelming.
Inga Lára Jónsdóttir, varnarmaður Keflavíkur, var ánægð með sigurinn. ,,Það voru þrjár nýjar stelpur með mér í vörninni og það gekk bara mjög fínt, það reyndi í raun voða lítið á vörnina.“ Aðspurð um hvort það sé gaman að vinna leiki svo stórt svaraði hún „það getur orðið svolítið leiðingjarnt að vinna svona stórt en það var gaman í gær því við spiluðum vel og náðum að framkvæma ýmsa hluti sem við höfum verið að æfa.“
Næsti leikur Keflavíkurliðsins er á móti HK/Víkingi á útivelli. Inga Lára var hvergi bangin og sagði að þær myndu fara í bæinn til þess að ná í stigin þrjú.
Keflavík er sem áður segir í 1. sæti í sínum riðli með 18 stig og markatöluna 62:1 og fátt virðist geta hægt á skriðþunga liðsins.
Myndin: Markmaður Keflavíkurliðsins hafði lítið sem ekkert að gera í leiknum og hefði hæglega getað horft á leikinn frá áhorfendastúkunni. VF-myndin/Atli Már Gylfason