18 af 22 keppendum frá Keflavík
- á opna skoska meistaramótinu í taekwondo.
Keflvíkingar áttu 18 af 22 íslensku keppendunum á opna skoska meistaramótinu í taekwondo og stóðu sig með stakri prýði. Mótið var haldið í Glasgow og var í 9. sinn. Fjölmennt íslenskt lið mætti á mótið sem saman stóð af 22 keppendum, 3 þjálfurum, fjöldamörgum foreldrum og fjölskyldumeðlimum. Mótið fór fram bæði laugardag og sunnudag enda voru tæplega 400 keppendur á mótinu frá löndum víðsvegar um Evrópu.
Árangur íslenska liðsins var á þá leið að það vann 21 gull, 12 silfur og 10 brons. Einnig fékk liðið heildarstigabikarinn heim til Íslands.
Á þessu ári hefur þá íslenska liðið bæði verið scottish open meistari í liðakeppni og Norðurlandameistari liða. María Bragadóttir úr Aftureldingu var valin kvenkeppandi mótsins, en hún vann tvenn gullverðlaun og ein bronsverðlaun. Íslenska liðið var annað besta liðið í tækni og besta liðið í heldina á mótinu þegar árangur allra liða hafði verið tekinn saman.