156 keppendur tóku þátt í sprettþraut UMFN
Það var blaut en gríðarlega skemmtileg keppni þegar 57 keppendur tóku þátt í árlegri sprettþraut Þríþrautardeildar UMFN sl. laugardag. En keppendur létu ekki veðrið hafa áhrif á sig ogtóku á af fullum krafti í góðri stemningu. Hákon Hrafn kom fyrstur í mark hjá körlunum á tímanum 33:34 mínútur og Birna Björnsdóttir fyrst kvenna á tímanum 36:53. Keppnin heppnaðist vel og voru keppendur hæstánægðir með framkvæmd og umgjörð mótsins. Í ár var notast við alvöru tímatökubúnað með flögum sem gerði mótið miklu faglegra í alla staði. Karen Axels járnkerling lýsti keppninni jafnóðum í gjallarhorn sem myndaði skemmtilega stemningu við hliðarlínuna fyrir áhorfendur sem fylgdust með.
Einkar glæsileg verðlaun voru veitt fyrir besta tíma karla og kvenna í brautinni, en það voru ECCO skór á Íslandi sem gáfu skó og Sporthjól/Orca gáfu þríþrautarfatnað.
Einnig var haldin fjölskylduþríþraut þar sem meira er lagt upp úr því að hafa gaman og öllum gefið tækifæri á að taka þátt. Þar tóku 33 lið þátt eða 99 manns. Í fjölskylduþríþrautinni mega allt að þrír mynda lið og skipta á milli sín leggjum í þrautinni (sund, hjól, hlaup). Það var BED-Team sem vann fjölskylduþríþrautina á tímanum 24:05, en liðið mynduðu þau Birna Björnsdóttir, Egill Ingi Jónsson og Daníel Ingi Egilsson.
Keppendur sem í heildina voru 156 voru síðan leystir út með veglegum útdráttarverðlaunum og veitingum. Fjöldi vinninga og veitinga frá fyrirtækjum í byggðarlaginu og næsta nágrenni var slíkur að nánast allir keppendur eða lið fengu útdráttarverðlaun. Allir fóru því saddir og sælir heim að loknu móti.
Helstu styrktaraðilar mótsins voru: Tryggingamiðstöðin, IGS, Sigurjónsbakarí, Kaffitár, Rolf Johansson í samstarfi við Erling Hannesson, Ecco skór og Sporthjól/Orca. Þessi fyrirtæki eiga skildar kærar þakkir fyrir að gera mótið okkar glæsilegt.
Myndir og nánari umfjöllun má finna á umfn.is