153 hjóla í Reykjanesmóti á sunnudag
Reykjanesmótið í hjólreiðum fer fram nk. sunnudag en þetta er sjötta árið í röð sem mótið er haldið. Samtals eru 153 skráðir til leiks en þátttakendur voru 100 á mótinu í fyrra. Mótið markar alltaf upphaf keppnistímabilsins á árinu.
Keppt verður í tveimur flokkum: Keppnisflokki sem hjólar 64km þar sem snúið er við hjá Reykjanesvirkjun og Byrjendaflokki sem hjólar 32km þar sem snúið er við á gatnamótum Ósabotna og Hafnarvegs.
Vegleg útdráttarverðlaun eru á mótinu, en ýmis fyrirtæki hafa lagt mótshöldurum lið í gegnum árin í þeim málum.