140 þátttakendur á afmælisgolfmóti
Gunnar Oddgeir Sigurðsson og Helgi Dan Steinsson sigruðu.
140 kylfingar tóku mættu til leiks á 40 ára afmælisgolfmóti Grindavíkurbæjar á Húsatóftavelli á laugardaginn, sem má teljast glæsileg þátttaka. Aðeins rigndi á kylfinga fyrir hádegi en eftir hádegi var blíðskaparveður. Þetta kemur fram á vefsíðu Grindavíkurbæjar.
Það var reynsluboltinn Gunnar Oddgeir Sigurðsson úr Golfklúbbi Grindavíkur sem stóð uppi sem sigurvegari í punktakeppninni en Helgi Dan Steinsson úr GG vann höggleikinn örugglega.
Veitt voru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í punktakeppninni:
1. Gunnar Oddgeir Sigurðsson GG 37 punktar
2. Pétur Runólfsson GR 37 punktar
3. Harpa Rós Björgvinsdóttir GHG 37 punktar
Þar sem þessi þrjú voru efst og jöfn réðust úrslitin á síðustu 6 holunum.
Helgi Dan Steinsson lék hringinn á 70 höggum en Hafsteinn Hafsteinsson úr GHG og Sigurgeir Guðjónsson úr GG léku á 75 höggum. Þá voru veitt verðlaun fyrir að vera næstur holu og svo ýmis úrdráttarverðlaun. Mótið tókst ljómandi vel en Golfklúbbur Grindavíkur sá um framkvæmd í þess í samstarfi við afmælisnefnd Grindavíkurbæjar.