120 þjálfarar í þjálfarabúðum hjá Keili
Um helgina sóttu um 120 þjálfarar úr ýmsum áttum einstakar, 3ja daga Þjálfarabúðir hjá Keili. Kennararnir komu allir frá USA og eru heimsþekktir á sviði styrktarþjálfunar og næringarráðgjafar hjá íþróttamönnum, þeir dr. Chris Mohr, Dave Jack og Michael Boyle.
Merkasta nafnið í hópnum er án efa Michael Boyle styrktarþjálfari en fjölda margir íslenskir þjálfarar hafa fylgst með honum lengi og það er með sanni sagt að hann olli ekki vonbrigðum.
Keilir er strax farinn undirbúa næstu Þjálfarabúðir í febrúar á næsta ári og staðfest hefur verið að Michael Boyle mæti aftur en það þykir mjög merkilegt þar sem Michael fær í hverri viku boð um að tala víðs vegar í heiminum og synjar þeim yfirleitt. Ástæðan fyrir því að hann ákvað upphaflega að þiggja boð Keilis um að koma til Íslands var sú að honum fannst landið spennandi og konunni hans langaði að koma. Á blogginu sínu segir hann frá upplifun sinni af Íslandi. Þar segir hann að dvölin á Íslandi hafi verið sú ánægjulegasta á öllum hans ferli sem fyrirlesari og handsalaður var samningur við hann um að koma aftur í febrúar og verður spennandi að sjá hvað hann ætlar að bjóða þátttakendum uppá næst.
Meira neðan við mynd...
Þátttakendur höfðu þetta að segja um námskeiðið:
Starfsfólk Keilis á heiður skilið fyrir að fá til Íslands mörg stærstu nöfnin á sviði líkamsþjálfunar hvort sem það snýr að almenningi eða íþróttamönnum og eru með því feta braut til bættrar líkamsþjálfunar á Íslandi sem mér fannst löngu komin tími til að einhver fetaði.
Stefán Ólafsson sjúkraþjálfari MTc
Fyrir mig sem íþróttamann og þjálfara veittu Þjálfarabúðirnar mér mikinn innblástur sem er ótrúlega dýrmætt. Ekki nóg með að þekking þeirra sé á æðra stigi þá eru þeir snillingar í að segja skemmtilega frá. Mæli með þessu fyrir alla og mæti hiklaust á næstu Þjálfarabúðir.
Logi Geirsson, handknattleiksmaður og ÍAK einkaþjálfari
Svona námskeið er eitthvað sem enginn ætti að láta framhjá sér fara sem starfar í heilsu-/líkamsræktargeiranum í dag. Magnaðir fyrirlesarar og ómetanlegt að geta sótt námskeið hjá mönnum með svona mikla reynslu og mikinn fróðleik hér á Íslandi.
Anna Pála Magnúsdóttir, sjúkraþjálfari B.Sc.
Algjört success – Fróðlegar og skemmtilegar Þjálfarabúðir.
Jón Haukur Hafsteinsson, íþróttafræðingur B.Sc.