Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

11 leikir í röð án sigurs hjá Keflvíkingum
Laugardagur 27. september 2014 kl. 09:33

11 leikir í röð án sigurs hjá Keflvíkingum

Hefðum mátt sýna meira lífsmark gegn Fylki segir fyrirliði Keflvíkinga

Keflvíkingar töpuðu sínum þriðja leik í röð i Pepsi-deild karla í knattspyrnu um sl. helgi, þegar Fylkismenn höfðu 0-1 sigur á heimavelli Keflvíkinga. Keflvíkingar sigruðu síðast leik í deildinni þann 22. júní einmitt gegn Fylki á útivelli í 9. umferð. Þá var liðið með 16 stig og hafði aðeins tapað einum leik. Síðan hafa komið þrjú stig í hús eftir jafnteflisleiki gegn Blikum, Fjölni og Þórsurum. Eftir leikinn gegn Fylki eru Keflvíkingar í 10. sæti deildarinnar með 19 stig. Fram er í fallsæti með 18 stig ásamt Þórsurum sem þegar eru fallnir. Fari svo að Keflvíkingar sigri ÍBV á sunnudag og Fram tapi gegn Stjörnunni, eru Keflvíkingar hólpnir.

Haraldur Guðmundsson fyrirliði Keflvíkinga segir fullsnemmt að gera upp tímabilið á þessari stundu. Enn séu tvær umferðir eftir. Ekki þýði að líta til baka og hugsa um stigin sem töpuðust hér og þar. Hann viðurkennir þó að þetta slæma gengi hafi áhrif á Keflvíkinga.
„Auðvitað leggst þetta gengi aðeins á okkur. Ef við tölum bara um deildina þá er orðið mjög langt síðan við unnum fótboltaleik. Okkur líður þó ekki þannig þar sem við unnum jú leiki í bikarnum inn á milli. Við erum meðvitaðir um það að við þurfum að fara að vinna, nú er það bara næsti leikur sem gildir,“ segir varnarmaðurinn sterki. Sá leikur er gegn ÍBV á útivelli. Síðast þegar Keflvíkingar héldu til Eyja í lok ágúst í fyrra, voru þeir strandaglópar vegna veðurs. Fyrri leik liðanna í sumar lauk svo með 1-2 sigri Eyjamanna á Nettóvelli. „Staðan er bara þannig að þetta er í okkar höndum; við þurfum ekki að treysta á nokkurn annan.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar urðu undir í baráttuleik gegn Fylkismönnum í vægast sagt hörmulegu veðri í síðasta leik. „Veðrið var ömurlegt, en ég geri mér grein fyrir því að Fylkismenn léku líka í því veðri. Við hefðum eflaust sýnt meira lífsmark í leiknum. Það þýðir lítið að pæla í því núna, staðan er bara svona. Það er spenna í loftinu og við verðum að hlakka til næsta leiks. Það er mikið undir og við fáum að finna fyrir púlsinum aðeins.“ Keflvíkingar þekkja það að vera í svipaðri stöðu en liðið bjargaði sér eftirminnilega frá falli eftir frábæran endasprett. „Við vorum í þessari stöðu í fyrra frá fyrsta degi. Seinni part móts vorum við svo nokkuð sterkir og komum hreinlega aftan að mörgum liðum. Nú er staðan þannig að önnur lið eru að koma aftan að okkur. Góð lið koma til baka og við verðum að gera það.“

Þrjú stig komið í hús eftir 9. umferð

Eftir sigur gegn Fylki 22. júní voru Keflvíkingar komir með 16 stig og í fínum málum í deildinni. En telur Haraldur að menn hafi hreinlega bara slakað á eftir það? „Það má alveg skoða það þegar tímabilinu lýkur,“ segir Haraldur sem telur mörg smáatriði skipta sköpum á heilu keppnistímabili og því spili margt inn í það af hverju liðið er í þessari stöðu. „Það er auðvitað alltaf hundleiðinlegt þegar illa gengur í fótbolta. Það sest á menn og þeir finna fyrir því í samfélaginu öllu að það gengur ekki vel.“ Hann vill síður skella skuldinni á einhverja aðila og segir Keflvíkinga standa saman í þessari baráttu.

„Auðvitað eiga þjálfarar hlut í þessu eins og við leikmenn, við erum jú í þessu saman. Við erum í sömu skútunni og vonandi allir að róa í sömu átt. Þetta er ekki tímapunkturinn til þess að beina fingrum að einhverjum ákveðnum atriðum. Ég veit það þó fyrir víst að þjálfarnir spila ekki leikinn. Ég tel að það sé best að klára mótið og svo fara að pæla í af hverju hitt og þetta gerðist.“

 

  • Keflvíkingar hafa náð í 9 stig á heimavelli í sumar en 10 á útivelli

  • Aðeins eitt lið hefur skorað færri mörk en Keflvíkingar í deildinni - Þórsarar sem sitja á botninum

  • Keflvíkingar hafa skorað 25 mörk á tímabilinu. Hörður Sveinsson hefur skorað 9 af þeim. Elías Már er með 4 og þeir Magnús Sverrir og Jóhann Birnir eru með 3 hvor. Alls hafa 9 leikmenn komist á blað í deildinni