10 Keflvíkingar héldu ekki út gegn FH
Keflvíkingar máttu sætta sig við ósigur gegn FH í Kaplakrikanum í kvöld. Lokatölur urðu 1-0 fyrir heimamenn en Keflvíkingar misstu mann af velli strax í upphafi leiks og léku einum færri lungan af leiknum.
Það byrjaði ekki vel fyrir Keflvíkinga en Adam Larsson fékk að líta rauða spjaldið eftir aðeins 6 mínútna leik eftir að hafa brotið á Atla Guðnasyni sem var að sleppa inn fyrir og útlitið því svart fyrir strákana úr Bítlabænum.
Keflvíkingar náðu þó að halda fengnum hlut í fyrri hálfleik og vörðust vel. Það dró þó til tíðinda á 80. mínútu en þá kom Atli Viðar Björnsson FH-ingum yfir en skömmu áður áttu Hafnfirðingar skot í slá fyrir opnu marki.
Keflvíkingar voru svo ansi nálægt því að jafna þegar Guðmundur Steinarsson var nálægt því að skora úr skyndisókn Keflvíkinga.