1. deildin: Njarðvíkursigur, Reynir á botninum
Njarðvík hrósaði sigri á Stjörnunni í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 3-1, sem er fyrsti sigur þeirra á nýjum heimavelli sínum. Á meðan lutu Reynismenn frá Sandgerði enn í gras, nú gegn Gunnari Oddssyni, fyrrum þjálfara sínum, og lærisveinum hans í Þrótti í Reykjavík, 4-2. Hafsteinn Friðriksson og Jóhann Magni Jóhannsson skoruðu mörk Reynis í síðari hálfleik eftir að Þróttur hafði leitt í leikhléi, 4-0.
Leikurinn á Njarðvíkurvelli einkenndist af mikilli baráttu, en var þó ansi skemmtilegur á að horfa lengst af. Njarðvikingar voru fyrri til að skora þegar Sverrir Þór Sverrisson lagði boltann laglega í markið efir gott upphlaup á 28 mín. Stjörnumenn jöfnuðu leikin á 39 mín. en fram að hálfleik skiptust liðin á að sækja.
Alfreð Jóhannsson kom heimamönnum yfir á ný eftir rúmlega klukkustundar leik með góðu skoti úr teig og lagði svo upp síðasta markið stuttu síðar þar sem hann slapp innfyrir og lagði boltann út í teig þar sem Haukur Ólafsson kom aðvífandi og gerði út um leikinn. Að vísu hafði þá fækkað nokkuð í liði Stjörnunnar en þeir Bjarki Páll Eysteinsson og Mustafa Kalkan fengu reisupassann hjá Garðari Erni Hinrikssyni, dómara leiksins.
Eftir 11. umferðina eru Grindvíkingar efstir í deildinni sem fyrr, Njarðvíkingar eru í 8. sæti, en Reynismenn verma 12. sætið á botni deildarinnar. Ekki er þó öll nótt úti enn fyrir Reynismenn því deildin er afar jöfn og þarf ekki mikið til að lyfta þeim upp í öryggið ef þeir girða sig í brók og fara að hala inn stigum.
Staðan í deildinni
VF-mynd/Þorgils - Alfreð kyssir skó Hauks eftir þriðja markið.