Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Laugardagur 3. janúar 2004 kl. 20:15

1. deild kvenna: Keflavík vinnur góðan sigur á Grindavík, Njarðvík tapar gegn ÍS

NJARÐVÍK-ÍS

Njarðvík tapaði illa fyrir ÍS í 1. deild kvenna í körfuknattleik í dag, 46-84. Njarðvík varð á dögunum fyrir mikilli blóðtöku þegar Andrea Gaines, leikmaður og þjálfari liðsins, sem hefur borið liðið uppi í allan vetur ákvað að snúa ekki aftur til Íslands eftir jólafrí. Í dag kom kom glögglega í ljós hversu mikilvæg Gaines var Njarðvíkurliðinu vegna þess að án hennar stóð ekki steinn yfir steini í leik liðsins sem fékk á sig 33 stig í öðrum leikhluta en skoraði einungis 4 á móti. Staðan í hálfleik var 14-42 og seinni hluti leiksins því ekkert annað en formsatriði.

Auður Jónsdóttir, fyrirliði Njarðvíkur, sagði að hugarfarið hafi ekki verið sem skyldi hjá sínu liði og hafi ekki spilað minna inn í leik þeirra en missir þjálfarans og stjörnuleikmannsins. „Við vissum að við þurftum að taka á þeim, og það gekk í fyrsta leikhluta, en eftir það hittu ÍS bara úr öllum skotum sem segir allt sem segja þarf um varnarleikinn hjá okkur.“

Sýnt þykir að Njarðvíkingar verði að finna sér annan erlendan leikmann hið snarasta ef ekki á að fara illa, en liðið hefur ennþá sex stiga forskot á ÍR og Grindavík sem eru í neðstu sætum deildarinnar.

Ingibjörg Vilbergsdóttir var stigahæst Njarðvíkinga með 11 stig en hún tók einnig 9 fráköst.

Alda Jónsdóttir skoraði 23 stig fyrir ÍS, Lovísa Guðmundsdóttir skoraði 14 og tók 10 fráköst og Stella Kristjánsdóttir skoraði einnig 14 stig.

Tölfræði leiksins má finna hér

KEFLAVÍK-GRINDAVÍK

Keflavík vann góðan heimasigur á Grindavík í kvöld 70-50. Keflavík var með forystu allan leikinn, en í seinni hálfleik sóttu Grindavíkurstúlkur í sig verðrið og luku leiknum með sæmd. Allt annað var að sjá til Grindavíkurliðsins, sem hélt Keflvíkingum í 70 stigum, en í fyrri leikjum liðanna höfðu Keflvíkingar skorað 104 og 107 stig. Þessa velgengni má að nokkru leyti þakka nýjum erlendum leikmanni Grindvíkinga, Kesha Tardy, sem bætti leik liðsins verulega þrátt fyrir að hafa mætt beint í leikinn úr flugvélinni eftir langt ferðalag.

María Ben Erlingsdóttir stóð sig líka sérlega vel í liði Keflavíkur í kvöld, en þessi 15 ára stúlka skoraði 8 stig og tók jafnmörg fráköst þrátt fyrir að hafa aðeins spilað hálfan leikinn. Hún á sannarlega framtíðina fyrir sér og er, samkvæmt talnaspekingum KKÍ, besti varamaðurinn í deildinni. [sjá könnunina hér]

Hjörtur Harðarson, þjálfari Keflavíkur, var þokkalega sáttur í leikslok. „Við spiluðum vel í byrjun, en misstum svo aðeins dampinn í seinni hálfleik þegar Grindvíkingar áttu góðan kafla, sérstaklega í þriðja leikhluta, en við unnum og höldum ennþá í við ÍS í deildinni.“ Keflavík er að leik loknum í öðru sæti sem fyrr, tveimur stigum á eftir ÍS.

Pétur Guðmundsson hjá Grindavík var sömuleiðis ánægður þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið honum hagstæð. „Það er mikill munur að fá Tardy til liðs við okkur, hún var að skila sínu vel í dag en ég notaði hana meira en ég ætlaði. Hún er sterk undir körfunni og gefur hinum stelpunum þess vegna meira pláss fyrir utan og þær eiga eftir að hagnast á því. Ég sá í kvöld fullt af styrkleikum sem eiga eftir að hjálpa okkur á næstunni.“

Kesha Tardy er 23 ára og útskrifaðist með lögfræðipróf úr Louisiana State háskólanum á síðasta ári, en meðal annarra fyrrum nema LSU má nefna Shaquille O’Neal var í á sínum tíma. Pétur sagði í samtali við Víkurfréttir að hann teldi liðið heppið að fá slíkan leikmann til liðs við sig.

Stigahæst hjá Keflavík var Anna María Sveinsdóttir með 14 stig. Hún tók einnig 11 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Erla Þorsteinsdóttir hafði sig hæga í leiknum og skoraði 10 stig en hún lék einungis í 18 mínútur vegna villuvandræða.

Tardy var stigahæst Grindvíkinga með 16 stig, en næst henni kom Sólveig Gunnlaugsdóttir með 13 stig.

Tölfræði leiksins má finna hér

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024