Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 31. janúar 2004 kl. 18:15

1. deild kvenna: Keflavík vann öruggan sigur á Njarðvík. Grindavík vann KR.

KEFLAVÍK-NJARÐVÍK

Keflavík vann Njarðvík, 62-87 í leik liðanna í 1. deild kvenna sem fór fram í Njarðvík í dag. Njarðvíkurstúlkur héngu inni í leiknum lengi vel en í byrjun seinni hálfleiks náðu Keflvíkingar góðri forystu sem þær létu ekki af hendi þrátt fyrir góðan endasprett Njarðvíkinga. Þrátt fyrir sigurinn voru Keflvíkingar alls ekki að spila vel allan leikinn en þær áttu góða kafla sem reyndust Njarðvíkingum ofviða.

Hjörtur Harðarson var feginn að landa sigri en fannst mikið vanta í leik sinna stúlkna. „Þetta var allls ekki auðveldur sigur. Njarðvíkingarnir voru að berjaast mikið meira og sóknin hjá okkur var agaleg þar sem við vorum að klikka á auðveldum færum og missa bolta út í eitt. En þetta er eitthvað sem við þurfum að laga. Við verðum ekki bikarmeistarar með svona leik.“

Jón Júlíus Árnason, þjálfari Njarðvíkur, var heldur ekki alveg sáttur við leik sinna stúlkna og sagði klassamun vera á liðunum enn sem komið er. „Það var bara eins og hugarfarið væri ekki rétt hjá þeim. Vörnin var heldur ekki nógu góð því við eigum aldrei að fá á okkur 87 stig og stelpurnar eru mér sammála um það. En ég er sannfærður um að við eigum eftir að leggja þær bráðlega. Þótt það verði ekki næst mun það gerast í framtíðinni. Við ætlum okkur að halda 4. sætinu í deildinni og ég held að við séum á réttri braut.

Stigahæstar:

Njarðvík: Andrea Gaines 17 stig/13 fráköst, Auður Jónsdóttir 14.
Keflavík: Birna Valgarðsdóttir 26/10, Erla Reynisdóttir 14, Anna María Sveinsdóttir 10/10.

GRINDAVÍK-KR

Í seinni leik dagsins vann Grindavík enn einn sigurinn og að þessu sinni voru það KR stúlkur sem lutu í gras. 84-64 voru lokatölur úr Röstinni en Grindvíkingar hafa þá unnið alla sína leiki eftir áramót nema einn sem var gegn Keflavík.

Pétur Guðmundsson, þjálfari Grindavíkurstúlkna, sagði sigurinn öruggan og sannfærandi. „Við vorum að spila góða vörn og vorum einfaldlega betri. Við erum búin að ná takmarkinu sem var fjórða sætið, en það eru fimm leikir eftir og ég vona að við klúðrum þessu ekki.“, sagði Pétur og bætti því við að í síðustu leikjum hefði verið ólíkt skemmtilegra að standa í þessu heldur en í strögglinu fyrir jól.

Tilkoma Keshu Tardy hefur virkað eins og vítamínsprauta á Grindavíkurliðið sem virtist fyrir áramót vera hlekkjað við botn deildarinnar. Þær hafa unnið fjóra leiki í röð, og tyllt sér í fjórða sæti deildarinnar og lagt KR og ÍS að velli sem eru talin næst á eftir Keflvíkingum að getu. Nú er að sjá hvort Pétur og stelpurnar hans nái að fylgja sigrunum eftir og jafnvel stela þriðja sætinu í deildinni. En það mun allt koma í ljós á næstu vikum.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024