Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 21. janúar 2004 kl. 21:14

1. deild kvenna: Keflavík á toppinn, Njarðvík vinnur ÍR

NJARÐVÍK-ÍR 71-56

 

Njarðvík vann í kvöld góðan sigur á botnliði ÍR í 1. deild kvenna í körfuknattleik.

Njarðvíkingar höfðu góð tök á leiknum frá byrjun og höfðu átta stiga forskot í hálfleik 40-32. Heimastúlkur hittu mikið utan af velli og spiluðu lengst af góða pressuvörn sem lagði grunninn að sigrinum í kvöld

Eplunus Brooks, máttarstólpi ÍR mætti til leiks sárþjáð og var augljóst að hún var langt frá því að vera leikfær. Mikinn óhug setti að áhorfendum sem og leikmönnum er Brooks hneig niður meðvitundarlaus þegar fjórar mínútur lifðu enn af leiknum. Hún var flutt á sjúkrahús og er enn óvíst með líðan hennar. Þrátt fyrir allt verður að minnast á framgöngu hennar í leiknum þar sem hún fékk að komast upp með ótrúlegustu hluti undir körfunni og endaði einn leikmaður Njarðvíkurliðsins m.a. í gólfinu eftir þungt olbogaskot frá Brooks. Vonandi eru veikindi hennar þó ekki alvarleg.

Flestir leikmenn Njarðvíkur voru að standa sig með ágætum, en Auður Jónsdóttir, fyrirliði þeirra, leiddi sínar stúlkur með stakri prýði ásamt því að Guðrún Karlsdóttir kom mjög sterk inn. Þá munaði verulega um Grétu Jósepsdóttur sem var drjúg undir körfunni í vörn og sókn.

Jón Júlíus Árnason, þjálfari, var ánægður með sigurinn sem hann sagði vera sigur liðsheildarinnar. „Stelpurnar eru að leggja hart að sér og hafa verið að bæta sig mikið. Við vorum að spila vel lengst af, en áttum slæma kafla á milli, en allar stelpurnar lögðu sitt af mörkum og þess vegna uppskárum við sigur.“

Auður Jónsdóttir skoraði 27 stig fyrir Njarðvík og Guðrún Karlsdóttir skoraði 15.

 

KR-KEFLAVÍK 60-73

 

Keflvíkingar náðu loks toppsætinu á ný eftir góðan útisigur á KR í tilþrifalitlum leik. Þær höfðu frumkvæðið allan leikinn og höfðu m.a. 15 stiga forystu í hálfleik, 27-42.

Heimaliðið komst aldrei nær en 10-15 stig og var því leikurinn í öruggum höndum allan tímann. Vörn gestanna var föst fyrir, sem sést best á því að Hildur Sigurðardóttir mátti sín lítils gegn Keflavíkurvörninni og skoraði einungis 7 stig í leiknum, en sóknarleikurinn og skotnýtingin hafa of verið skárri á þeim bænum. Það kom þó ekki að sök því sigurinn er í höfn og toppsætið tryggt fram að leik ÍS og Keflavíkur á laugardaginn, í það minnsta.

„Þetta gekk ágætlega í kvöld.“ Sagði Anna María Sveinsdóttir, leikmaður Keflavíkur í leikslok. „Þetta var baráttusigur. Sóknin hjá okkur var ekkert rosaleg, en þetta var líka svolítill stressleikur. Ef við hefðum tapað væru KR búnar að ná okkur í deildinni, en þetta var samt öruggt allan leikinn.“

Birna Valgarðsdóttir var stigahæst Keflvíkinga með 24 stig, Erla Þorsteins kom næst með 20 stig, en hún tók líka 15 fráköst. Þá skoraði Anna María Sveinsdóttir 10 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.

Katie Wolfe skoraði 20 stig fyrir KR og Sigrún Skarphéðinsdóttir skoraði 13.

 

Eftir 13 umferðir eru Keflavíkurstúlkur búnar að tylla sér á topp deildarinnar, en þar á eftir koma ÍS og KR. Njarðvíkingar tryggðu sig í fjórða sætinu tímabundið, en Grindvíkingar sækja hart að þeim.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024