1. deild kvenna: Grindavík á beinu brautinni, Njarðvík tapar heima
GRINDAVÍK-ÍR
Grindavík vann sinn annan leik í deildinni í vetur þegar þær unnu góðan heimasigur á ÍR í gærkvöldi. Lokatölur voru 58-47 eftir að heimastúlkur höfðu unnið upp 8 stiga forskot sem ÍR hafði í hálfleik.
Stigahæstar Grindvíkinga voru Sólveig Gunnlaugsdóttir, sem skoraði 14 stig og Sandra Guðlaugsdóttir, sem setti 11. Enn einn stórleikur Eplunus Brooks dugði ÍR ekki til sigurs í kvöld en hún var með 17 stig og 18 fráköst.
Liðin eru jöfn í tveimur neðatu sætunum með 4 stig eftir 9 leiki.
NJARÐVÍK-KR
KR-stúlkur gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Njarðvíkinga í Ljónagryfjunni í gærkvöldi 72-80.
Segja má að KR hafi gert út um leikinn í fyrsta leikhluta þar sem þær skoruðu 29 stig gegn 18 stigum heimastúlkna, en Njarðvík náði aldrei að vinna þann mun upp.
Andrea Gaines átti enn einn stórleikinn fyrir Njarðvík og skorðai 30 stig og tók 17 fráköst, Auður Jónsdóttir skoraði 14 og Guðrún Karlsdóttir skoraði 12.
Katie Wolf virðist vera að smella æ betur að leik KR og skoraði 23 stig og tók 9 fráköst, en Hildur Sigurðardóttir var engu að síður besti leikmaður kvöldsins og náði þrefaldri tvennu, 19 stig, 18 fráköst og 10 stoðsendingar. Hún fyllti raunar í ferfalda tvennu því hún tapaði boltanum 11 sinnum að auki, en hún telur það varla með. Tinna Sigmundsdóttir átti líka góðan leik og gerði 13 stig.
Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 10 stig hvort.