... og mexíkanarnir alveg brjálaðir allan tímann!
– segja þeir Ísak Óli Ólafsson og Rúnar Þór Sigurgeirsson sem leika saman í vörninni hjá úrvalsdeildarliði Keflavíkur
Strákarnir stigu stórt skref um síðustu helgi þegar þeir léku báðir sinn fyrsta A-landsleik fyrir Íslands hönd. Leikurinn fór fram á AT&T leikvanginum í Dallas þar sem Mexíkó hafði að lokum nauman 2:1 sigur fyrir framan rúmlega fjörutíu þúsund áhorfendur.
Eftir því sem Víkurfréttir komast næst hafa tveir leikmenn Keflavíkur ekki leikið saman landsleik með aðalliðinu síðan 7. desember 1997. Þá voru það þeir Jóhann Birnir Guðmundsson og Jakob Már Jónharðsson sem léku með Íslandi gegn Saudi-Arabíu í markalausum vináttulandsleik ytra. Víkurfréttir slógu á þráðinn til þeirra Ísaks Óla og Rúnars Þórs og spurðu út í upplifunina um helgina.
„Hvaða meistarar voru það sem léku þarna ‘97,“ spyrja þeir félagar fyrst og segja svo að Jóhann Birnir hafi einmitt þjálfað þá báða í yngri flokkunum. „Algjör snillingur.“
– Hvernig var þetta?
„Eiginlega bara sturlað,“ segir Ísak. „Það eiginlega ekki hægt að segja neitt annað,“ bætir Rúnar við. „Þetta var eiginlega bara óraunverulegt. Þetta er dýrasti leikvangur í heimi og út af Covid var bara helmingur leyfilegs áhorfendafjölda leyfður – það voru 44 þúsund manns á leiknum ...“
„... og mexíkanarnir alveg brjálaðir allan tímann,“ grípur Ísak fram í. „Ég gat ekki talað við Rúnar þótt hann stæði við hliðina á mér.“
„Lætin voru þvílík,“ bætir Rúnar við. „Ef maður var að reyna að öskra á kantmanninn þá þurfti að bíða eftir mómenti til þess, bíða eftir að lætin minnkuðu á vellinum svo maður þyrfti ekki að fara alveg upp að honum.“
Nýttu tækifærið vel
Ísak Óli segir upplifunina hafa verið magnaða og Ísland hafi verið ótrúlega nálægt því að klára leikinn. „Þetta lið er eitt af ellefu bestu liðum í heimi. Maður sá einhvern veginn gamla Ísland í þessum leik, skipulagið var svo gott.“
„Það er bara heiður að hafa fengið þennan séns,“ segir Rúnar Þór sem fer reyndar ekki áfram með liðinu í leikina gegn Færeyjum og Póllandi.
– Svo eru Færeyjar næst.
„Já, ég verð ekki í hópnum þá,“ segir Rúnar. „Við erum þrír úr í Mexíkóleiknum sem förum ekki til Færeyja og Póllands. Það koma aðrir leikmenn, sem eru að spila erlendis, inn í hópinn. Við sem lékum gegn Mexíkó fengum okkar tækifæri þar til að láta ljós okkar skína.“
„Allavega miðað við Mexíkóleikinn þá voru þeir sem byrjuðu og þeir sem komu inn á að nýta sénsinn mjög vel,“ segir Ísak. „Þetta er mjög gott lið og mjög góðir í pressu, þannig að þetta var góð prófraun – allavega fyrir mig og Rúnar. Núna vitum við hverju má búast við, hvað við þurfum að bæta og þess háttar.“
Bjartsýnir á framhaldið
„Þegar þeir eru komnir á aftasta þriðjung þá er þetta örugglega eitt besta lið í heimi. Þeir eru frekar litlir en rosalega snöggir á fyrstu metrunum og boltinn límist við þá. Þegar góðu, litlu, snöggu leikmennirnir þeirra fá boltann – þú vilt ekkert lenda í kapphlaupi við þá.
Það var bara gaman að fá að spila á móti þessum gæjum sem eru í Atletico Madrid, Napoli og þannig liðum. Alveg geggjað.“
Strákarnir eru núna staddir með landsliðinu í búbblu á Hilton hótel-inu í Laugardalnum. Þar verða þeir við æfingar þangað til liðið fer til Færeyja.
„Ég æfi með liðinu og þar sem ég er bólusettur verð ég með þeim þangað til þeir fara til Færeyja – þá er ég laus,“ segir Rúnar.
– Hvernig líst ykkur svo á framhaldið í deildinni?
„Bara vel, við þurfum að fara að rífa okkur í gang.“
– Það má eiginlega segja að þið hafið gert það á móti Íslandsmeisturunum í síðasta leik.
„Já, við vorum góðir þar og eiginlega bara betra liðið, allavega í seinni hálfleik,“ segir Ísak. „Allt annað að sjá til liðsins og það gerir mann bjartsýnan á framhaldið. Við erum að fara inn í mikilvæga törn núna svo það er bara upp og áfram. Við vonum bara að stuðningsmennirnir hrúgist á völlinn þegar samkomutakmarkanir rýmka meira, það væri gaman.“