Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

,,Hef engar áhyggjur af því að Njarðvíkingar láti ekki í sér heyra
Það má búast við alvöru stemmningu í Ljónagryfjunni í kvöld!
Fimmtudagur 2. apríl 2015 kl. 11:30

,,Hef engar áhyggjur af því að Njarðvíkingar láti ekki í sér heyra"

Friðrik Ingi Rúnarsson um oddaleik Njarðvíkur og Stjörnunnar

Njarðvík tekur á móti Stjörnunni í oddaleik í Njarðvík í kvöld. Spennan er eðlilega mikil fyrir leikinn og búist er að við að Ljónagryfjan verði orðin fullsetinn löngu fyrir leik í kvöld.

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, gaf sér nokkrar mínútur til að svara blaðamanni örfáum spurningum varðandi leik kvöldsins:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Var þungt yfir mannskapnum í klefanum eftir síðasta leik þar sem að þið eruð hársbreidd frá því að fara með leikinn í framlengingu og farið illa með tækifæri til að jafna leikinn?                    

Í raun ekki. Menn eru einbeittir og með hugann við að um seríu sé að ræða og það hefur gengið ágætlega að halda einbeitingu á milli leikja, hvort heldur er um að ræða sigur eða tapleiki.

Hvernig sérðu leikinn þróast í kvöld? Er eitthvað í ykkar leik sem þið ætlið að breyta eða lagfæra?                                

 Miðað við hvernig leikir liðanna hafa spilast má allt eins búast við áframhaldandi spennu fram á síðustu stundu. Liðin eru farin að þekkja hvort annað nokkuð vel svo það er ekki auðvelt að koma mikið á óvart í þessu en vissulega eru hlutir snikkaðir aðeins til á milli leikja.

 

Nú meiðist Stefan Bonneau í síðasta leik og yfirgefur völlinn í tvígang en klárar þó leikinn. Er hann 100% fyrir kvöldið? 

Hann hefur verið pínu tæpur í kálfanum en hann verður með og mun gefa allt sitt í leikinn.

 

Þessi sería fer sennilega í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi og hátt spennustig. Er ekki synd fyrir íslenskan körfubola að sjá á eftir öðru hvoru þessara liða strax í 8 liða úrslitum?

Það er alltaf sárt þegar lið detta út og mörgum finnst það enn sárara þegar um góð lið er að ræða. Gæði þessara liða eru mikil og mér finnst baráttan, spennan og spilamennska liðanna minna meira á leiki á milli liða í 4-liða úrslitum eða jafnvel í lokaúrslitum heldur en að um sé að ræða 8-liða úrslit. Þetta eru merki þess að breiddin í íslenskum körfubolta eru alltaf að aukast.

 

Einhver skilaboð sem þú vilt koma til stuðningsmanna fyrir leik?

Stuðningur áhorfenda getur gert kraftaverk fyrir lið og ég hef engar áhyggjur að stuðningsmenn Njarðvíkur láti ekki vel í sér heyra. þeir eru þekktir fyrir það og þekkja þessa stöðu vel sem liðið er í.