„Við vinnum enga leiki ef allir eru svona neikvæðir“

 „Við vinnum enga leiki ef allir eru svona neikvæðir, við þurfum að vera jákvæð, mæta á leikina og peppa strákana,“ segir Sævar Ingi Örlygsson, meðlimur PeppSquadKefBois.
PeppSquadKefBois er stuðningsmannasveit Keflavíkur í knattspyrnu. Í henni eru rúmlega tuttugu ungir strákar sem vilja ekkert annað en að liðið sitt sigri.

Þess vegna eru þeir búnir að mæta á hvern einasta leik á tímabilinu til að láta strákana vita að þeir standa með þeim. Þó að strákarnir í Keflavík séu búnir að gera þrjú jafntefli og tapa sex leikjum og hafi ekki enn náð að landa sigri í deildinni, halda PeppSquadKefBois áfram að mæta og styðja þá, því þeir þurfa á stuðningnum að halda.