„Það yrði erfitt að segja nei við Njarðvík“

Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson er á heimleið frá Bandaríkjunum en hann hefur leikið körfuknattleik með Marist háskólanum síðustu þrjú tímabil vestanhafs.

Í samtali við Víkurfréttir segir Kristinn ástæðu heimkomunnar fyrst og fremst þunglyndi sem hann hefur glímt við síðustu önn. „Svo hefur spilatíminn minn minnkað með hverjum leiknum. Það skipti ekki máli hvort maður spilaði vel eða illa, spilatíminn varð alltaf minni og minni.“

Aðspurður með hvaða liði Kristinn muni spila á Íslandi segir hann ekkert staðfest. Hann hafi þó fengið mörg tilboð en hvergi skrifað undir. „Það væri rosalega erfitt að segja nei við Njarðvík.“