„Deildin er gríðarlega sterk í ár“

- „Við erum með hóp stútfullan af hæfileikum,“ segir Úlfur Blandon, þjálfari Þróttar Vogum.

Þróttur Vogum fer vel af stað í 2. deildinni í knattspyrnu, liðið hefur farið með sigur af hólmi í fyrstu tveimur viðureignum sínum á tímabilinu. Nýliðunum er spáð sjöunda sæti í 2. deildinni af Fótbolti.net en Þróttur leikur í fyrsta sinn í ár í annari deildinni. Úlfur Blandon, þjálfari Þróttar, svaraði nokkrum spurningum fyrir Víkurfréttir um tímabilið, stuðninginn og styrkleika liðsins.

Ertu ánægður með byrjunina á Íslandsmótinu?
Við höfum farið vel af stað, bæði í stigasöfnun og eins í frammistöðu. Við hins vegar gerum okkur grein fyrir að þetta er gríðarlega sterk deild í ár, það eiga allir eftir að taka stig af hver öðrum þannig að við tökum bara einn leik í einu.  

Hvernig er staðan á hópnum?
Hún er góð, við erum með hóp stútfullan af hæfileikum, það er fín reynsla í bland við yngri leikmenn.

Hvert er markmið sumarsins?
Ætlum okkur að spila skemmtilegan fótbolta, skemmta okkar áhorfendum í Vogunum og sýna að við erum lið sem erfitt verður að mæta.

Ætlið þið að fá fleiri leikmenn til ykkar áður en leikmannaglugginn lokar?
Við erum opnir fyrir því en það er ekkert í hendi.

Er einhver leikmaður sem þú vilt nefna sem hefur sýnt framfarir í vetur eða bindur miklar vonir við?
Við bindum miklar vonir við alla okkar stráka og búumst við miklu frá þeim.

Skiptir stuðningurinn máli?
Hann skiptir öllu máli, fengum frábæra mætingu í fyrsta leik sem gríðarlega jákvætt. Svo núna um helgina á móti Gróttu voru stuðningsmenn Þróttar algjörlega geggjaðir, létu vel í sér heyra allan leikinn þetta var alveg ómetanlegt og hjálpaði okkur svo sannarlega, þeir voru okkar tólfti maður. Það er bara þannig að við eigum frábæra stuðningsmenn og vonumst til að sjá þá sem oftast þetta gerir svo mikið fyrir okkur.

Hver er ykkar styrkleiki/veikleiki?
Umgjörðin í kringum félagið og liðið er til algjörrar fyrirmyndar, það á tvímælalaust eftir að hjálpa okkur í sumar. Við erum með sterkan hóp af leikmönnum sem eru tilbúnir að leggja á sig mikla vinnu til að ná árangri. Ég kýs að líta svo á að glasið sé hálffullt, engir veikleikar bara ákveðnir styrkleikar sem við ætlum að verða enn betri í.