„Ég á helling inni“

Ingunn Embla og Grindvíkingar nálgast lokaúrslitin

Ingunn Embla Kristínardóttir skaust fram á sjónarsviðið aðeins 17 ára gömul með Keflvíkingum í Domino’s deildinni í körfubolta. Hún varð ófrísk sama ár. Hún viðurkennir að það hafi verið dálítið sjokk en alls staðar mætti hún jákvæðum straumum og hjálpsemi á meðgöngu. Hún var ekkert á því að slá slöku við og æfði körfubolta allt fram að fæðingu. „Ég var á æfingu bara tveimur dögum áður en ég átti. Ég var svo mætt á völlinn aftur tveimur vikum eftir að ég átti,“ segir þessi öflugi leikmaður. Grindvíkingar taka á móti Haukum í kvöld á heimavelli þar sem gular geta tryggt sér sæti í úrslitum með sigri, enda eru þær 2-1 yfir í einvíginu.

Ingunn sem er nú tvítug, leikur nú með Grindavík, segir að það hafi tekið dágóðan tíma að ná upp fyrri getu þar sem meiðsli hafi sett strik í reikninginn fljótlega eftir fæðingu, þar sem hún þurfti í aðgerð á hné. „Ég get ekki sagt að ég sé í mínu besta formi og á helling inni.“ Fyrr á árinu var Ingunn valin í A-landsliðið en hún er hæstánægð með að hafa fengið það tækifæri. „Það er allt upp á við núna þannig að ég er bara mjög bjartsýn á framhaldið.“

Erum drullugóðar með fullmannað lið

Þessa dagana etja Grindvíkingar kappi við Hauka í undanúrslitum Domino’s deildarinnar. Ingunn er hreinskilin með það að hún bjóst ekki við því að vera yfir í stöðunni 2-1 á þessum tímapunkti. „Við ætluðum auðvitað að koma brjálaðar inn í serínua þar sem enginn hafði trú á okkur.“
Grindvíkingar náðu á síðustu stundu að tryggja sér sæti í undanúrslitum eftir sætan sigur gegn Keflvíkingum. „Við erum búnar að vera upp og niður lið í allan vetur. Þegar við erum að fara inn í úrslitakeppnina þá erum við í raun í fyrsta sinn að tefla fram fullskipuðu liði. Þegar við erum með fullskipað lið erum við bara drullugóðar,“ segir leikstjórnandinn.

Daníel er okkar sjötti maður

Þjálfarinn Daníel Guðni er á sínu fyrsta ári í meistaraflokki. Ingunn segir að margt jákvætt felist í því. „Hann þorir jafnvel meiru en aðrir sem eru reynslumeiri. Hann er eins og sjötti maðurinn hjá okkur. Það er smitandi hvað hann lifir sig mikið inn í þetta. Ég hef aldrei fundið neina neikvæða strauma frá honum, hann nær að snúa öllu á jákvæðar nótur.“ Ingunn segist hafa viljað reyna eitthvað nýtt í körfunni og því ákvað hún að ganga til liðs við Grindavík frá uppeldisfélaginu Keflavík. „Það voru mjög miklar breytingar í Keflavík og ég stökk því á gott tækifæri í Grindavík.“ Þar líður henni mjög vel og segir bæjarbúa hafa tekið sér opnum örmum.