Villt illgresi eða ætar jurtir til heilsubótar?

Nú er farið að glitta í einstaka túnfífilshnappa víða í görðum og fleiri jurtir að líta dagsins ljós með hækkandi sól. Það er nefnilega svo að flestar jurtir sem við teljum illgresi eru í raun mikilvægar lækningajurtir sem við getum tínt sjálf og nýtt okkur til heilsubótar. Sem dæmi þá eru túnfífill, rabbabararót, arfi og njóli allt jurtir sem hafa verið notaðar frá örófi alda sem lækningajurtir. Túnfífillinn er í sérstöku uppáhaldi hjá mér en ég nota hann mikið, bæði blöð og rætur, þegar ég set saman jurtablöndur í meðferðarskyni. Túnfífillinn er ákaflega næringarrík jurt og inniheldur ríkulegt magn af A-vítamíni, mikið magn járns og kalks, B1, B2, B5, B6, B12, C-vítamín, sínk, kalíum, magnesíum og biotín. Túnfífillinn er talin hafa jákvæð áhrif á starfsemi meltingar og þá sérstaklega lifur og gallblöðru, ásamt því að vera vökvalosandi.

Villt túnfífilspestó

1 stór hnefi túnfífilsblöð

1 hnefi fersk basilika

1 bolli valhnetur eða heslihnetur

1 bolli furuhnetur

3 msk límónu- eða sítrónusafi

1-2 stór hvítlauksrif

1 lítill ferskur chilipipar (ef vill)

1 tsk sjávarsalt

1 msk rifinn parmesan ostur

200 ml ólífuolía

Hægt að blanda saman túnfífli og klettasalati ef vill. Allt sett í matvinnsluvél og hvítlaukur og chili saxað áður. Blanda þar til mjúkt og bæta olíu ef þörf. Geyma í glerkrukku og kæli og best að hella smá olíu efst í krukkuna áður en lok sett á til þess að auka líftíma. Skora á ykkur að prófa!

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.

www.facebook.com/grasalaeknir.is


Lesið :-)