Turmerik

Turmerik (Curcuma longa) er lækningajurt sem hefur sennilega verið mest rannsökuð síðastliðin ár og vakið athygli vísindamanna fyrir fjölþætt heilsubætandi áhrif á líkamann. Turmerik er bæði notað sem krydd í mat og hvað þekktast í indverskri matargerð en einnig verið notað sem náttúrulyf í aldanna rás.

Nýlegar rannsóknir á virka efninu í turmerik sem heitir curcumin virðist draga úr lifrarskemmdun samkvæmt rannsókn sem gerð var á Medical University Graz í Austurríki, en turmerik hefur lengi verið notuð í náttúrulækningum til að stuðla að afeitrun lifrarinnar. Rannsókn sem birt var 2004 í vísindaritinu Oncogene sýndi fram á sambærilega bólgueyðandi virkni turmeriks og bólgueyðandi lyfja eins og Aspirin, Ibuoprofen, Naproxen o.fl. skyld lyf en turmerik hefur m.a. hamlandi áhrif á svokallað COX-2 ensím líkt og þessi lyf hafa. Fleiri rannsóknir benda til þess að turmerik hefur sterk andoxunaráhrif á frumur, bakteríu- og vírusdrepandi virkni gegn ákveðnum örverum og krabbameinshamlandi áhrif, t.a.m. verndandi áhrif gegn húðkrabbameini.

Turmerik gæti gagnast fólki með hvers konar gigt og bólgusjúkdóma þ.m.t. bólgusjúkdóma í þörmum, astma og fleiri króníska sjúkdóma. Það eru margar leiðir til þess að nýta sér áhrif turmeriks í mataræðinu eins og t.d. að hræra 1-2 tsk af turmerikdufti (kryddið) í bolla af heitu vatni og drekka eins og te 2-3svar yfir daginn, eða setja 1-2 tsk út í mat s.s. eggjahræru, súpur, pottrétti, boost eða safa. Turmerik frásogast betur ef svartur pipar er notaður með því en hann eykur nýtingu og frásog turmeriks til muna. Einnig er hægt að taka turmerik inn í hylkjaformi fyrir þá sem kjósa frekar.

Bólgueyðandi sumar salatsósa:
4 msk lífræn ólífuolía
safi úr 2 sítrónum
¼ avókadó
1 hvítlauksrif
1 msk turmerik duft
1 msk lífrænt hunang
(eða 5 dropar hrein stevia)
smá salt

Öllu skellt í blandara.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir