10 heilsuráð fyrir góða meltingu

Það eru margt sem getur haft truflandi áhrif á meltinguna okkar og þættir eins og mataræði, fæðuóþol, streita, hormónaójafnvægi, kyrrseta, tilfinningalegt álag, aukaefni í fæðu, sníkjudýr, bakteríur, lyf/áfengi og óreglulegur svefn geta sett meltinguna í ójafnvægi. Hér eru nokkur ráð sem geta stuðlað að betri meltingu.

Borðaðu ferska, náttúrulega og trefjaríka fæðu. Byggðu stóran hluta máltíða þinna á miklu grænmeti ásamt lítillega af ávöxtum. Notaðu gróf kolvetni eins og hafra, rúg, bygg, heilhveiti/spelt, quinoa og fræ. Það getur verið gott að taka inn husk trefjaduft 1-2 msk að kvöldi með stóru vatnsglasi.

Drekktu nóg af vatni og fínt að miða við 2 l á dag. Vatn nærir allan líkamann, styður við upptöku næringarefna og hreinsar úrgangsefni úr ristlinum.

Prófaðu að taka inn góðgerla eins og acidophilus gerla, lífræna ab-mjólk eða nota sýrt grænmeti sem meðlæti (fæst frá Móðir Jörð í heilsubúðum). Þetta byggir upp heilbrigða þarmaflóru sem er afar mikilvægt fyrir góða meltingu.

Veldu grænt! Mikið af þessu græna í náttúrunni getur oft haft örvandi áhrif á meltinguna eins og grænkál, spínat og annað kál. Það getur líka verið gott að taka inn chlorella, hveitigras duft eða bygggras duft til að örva meltinguna og hreinsa ristilinn.

Forðastu unna fæðu og aukaefni í mat sem getur haft truflandi áhrif á slímhúðina í meltingarvegi. Fæða eins og hveiti, glútein, sykur, bragðefni eins og MSG geta haft áhrif á þá sem eru með viðkvæma meltingu.

Slakaðu á meðan þú borðar og tyggðu matinn vel til að draga úr uppþembu og meltingartruflunum. Of mikið álag og streita getur beinlínis valdið hægðatregðu.

Tileinkaðu þér að borða þig ekki fullsadda/n eða þar til þú ert 80% saddur/södd. Ofát eykur allt álag á meltingarfærin og getur ýtt undir uppþembu, brjóstsviða og hægðatregðu.

Forðastu að borða seint á kvöldin eða rétt fyrir svefn. Gefðu meltingunni hvíld á kvöldin og stundum er jafnvel gott að hafa létta máltíð á kvöldin og borða aðalmáltíðina í hádeginu. Prófaðu að sleppa að borða 3 klst fyrir svefn og sjáðu hvaða áhrif það hefur á meltinguna og líðan.

Hreyfðu kroppinn! Öll hreyfing hefur örvandi áhrif á vöðvana í meltingarveginum og eykur blóðflæði og þ.a.l. frásog næringarefna. Reyndu að ná 30 mín hreyfingu helst daglega.

Örvaðu meltingarkerfið. Borðaðu beiska fæðu eins og klettasalat og beiskt grænmeti en það eykur framleiðslu á meltingarsöfum og örvar lifrina og gallblöðru. Annað sem gott er að nota er t.d. sítrusávextir eins og grape og sítróna, piparmyntu te, fennel te, dandelion te (frá Clipper), magnesíum duft, lífrænn aloe vera safi, engifer og chia fræ.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.

www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.instagram.com/asdisgrasa
www.grasalaeknir.is