Þreytt á að vera þreytt?

Margir sem leita til mín eru að glíma við þreytu og slen, þetta eru sennilega með algengari einkennum sem ég hef orðið vitni að í gegnum árin meðal skjólstæðinga minna. Sumir eiga erfitt með að koma sér fram úr á morgnana þrátt fyrir að hafa sofið ágætlega yfir nóttina og eru jafnvel þreyttir yfir allann daginn. Það er vissulega eðlilegt að finna fyrir þreytu af og til en það er ekki eðlilegt þegar við erum langvarandi þreytt og yfirleitt er þá eitthvað undirliggjandi sem orsakar þreytuna. Hér eru nokkrir algengir orsakaþættir sem geta oft leitt til þreytu.

    •    Mataræði. Heilsusamlegt mataræði er stór þáttur í því að viðhalda góðri orku yfir daginn og margt í fæðunni okkar sem að sama skapi getur gert okkur slenug og þreytt eins og ofneysla koffíns (kaffi, súkkulaði, koffínte, gos, orkudrykkir), sykur og unnin kolvetni, óhóflegir matarskammtar (ofát), skortur á ýmsum næringarefnum (t.d. B12, járni) og fæðuóþol/ofnæmi. Kaffi og sykur veita okkur tímabundna orku en eyða þó orkubirgðunum okkar til lengri tíma litið og skilja okkur eftir þreytt.
    •    Sýkingar/sjúkdómar. Ýmsar örverur geta valdið langvinnum sýkingum í líkamanum eins og sveppir (candida), sníkjudýr, vírusar (Epstein Barr-virus) og bakteríur geta haft bælandi áhrif á ónæmiskerfið og þar með stuðlað að þreytueinkennum. Mikilvægt er að vinna á þessum sýkingum ef viðkomandi grunar að um eitthvað af ofangreindum sýkingum er að ræða. Eins ef um langvinna sjúkdóma er að ræða þá er þreyta oft óhjákvæmilegur fylgikvilli.
    •    Hormónaójafnvægi. Þarna ber helst að nefna innkirtla eins og nýrnahettur og skjaldkirtil en þessi líffæri eru afar mikilvæg til þess að viðhalda orkunni. Langvarandi streita og stress hefur letjandi áhrif á þessi líffæri til lengdar sem getur komið fram sem síþreyta. Ýmsar jurtir hafa styrkjandi áhrif á þessi líffæri og eins er mikilvægt að draga úr streitu eins og hægt er með t.d. jóga, göngutúrum, slökun og hugleiðslu.
    •    Umhverfisþættir. Streita, svefnleysi, toxísk efni í umhverfi hafa öll hver á sinn hátt skaðleg áhrif á heilsu okkar og geta haft truflandi áhrif á starfssemi líffærakerfa með mismunandi hætti. Gífurlegt magn toxískra efna úr umhverfi og fæðu er eitthvað sem við þurfum að vera á varðbergi fyrir en þar má t.d. nefna plastefni s.s. phalates, skordýraeitur, þungamálar eins og kvikasilfur og myglusveppaeitrun, en þetta geta m.a. verið undirliggjandi þættir að þreytu í sumum tilfellum.

Til þess að við náum að endurvekja lífskraftinn og grunnorkuna á ný ber því að huga að ýmsum þáttum og gagnlegt að fara yfir hjá sjálfum sér hvað það er í lífsstílnum okkar eða umhverfi sem dregur úr orkunni okkar.

Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir