Súkkulaði lakkrískossar

Það er svo notalegt að setjast upp í sófa með góðar uppskriftabækur og tebolla og prófa eitthvað öðruvísi og ný hráefni í eldhúsinu. Ég var á dögunum að skipuleggja barnaafmæli og rakst á þessa girnilegu uppskrift eftir Þorbjörgu Hafsteinsdóttur næringarþerapista sem ég veit að myndi falla vel í kramið hjá þeim sem þykja súkkulaði og lakkrís gott. Það er svo gott að gleðja sálina öðru hvoru með gómsætum mola:) Lakkrísrótin er lækningajurt sem er mikið notuð og hefur fjölvirk áhrif í líkamanum þ. á m. er hún sterk bólgueyðandi, styrkjandi fyrir nýrnahettur, mild hægðaörvandi, græðandi og mýkjandi fyrir slímhúð. Þeir sem eru með háþrýsting og mikla vökvasöfnun þurfa að halda inntöku á lakkrísrótinni í takmörkuðu magni. Mér finnst alltaf svo sniðugt þegar maður nær að tvinna lækningajurtir inn í uppskriftir og mataræði og fá þannig heilsueflandi áhrif þeirra í mismunandi formi. Fyrir utan hvað það er gott að gleðja sálina öðru hvoru með gómsætum mola eins og þessum.

4 dl eggjahvítur

100 g dökkt súkkulaði, t.d. 85% frá Rapunzel

2 msk smjör eða kókósolía

4 tsk lakkrísrótarduft (fæst í Heilsuhúsinu)

1 dl möndluhveiti eða gróft hrísgrjónamjöl

(hægt að prófa að nota annað mjöl ef viljið)

1-2 tsk salt


-stífþeyta eggjahvítur

-bræða súkkulaði í vatnsbaði og bæta olíu við, láta aðeins kólna

-þeyta súkkulaði og olíu saman við eggjahvíturnar og bæta við lakkrísrótardufti, salti og síðast möndluhveitinu

-ef þið viljið meira lakkrísbragð þá er bara að bæta meira í deigið

-setja deigið í lítil konfektform úr bréfi

-baka við 160-180°C í forhituðum ofni í 20 mín.


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is
www.pinterest.com/grasalaeknir