Súkkulaði: Hollari en við höldum?

Þessi ljúffenga fæða býr yfir ýmsum heilsubætandi eiginleikum en kakóbaunin inniheldur næringarefni eins og magnesíum, sínk og kopar, einnig efnið theobromine sem er gjarnan kennt við vellíðunina sem fylgir súkkulaði. Nýlegar kannanir benda til þess að flavoníð efni sem kallast polyphenols í dökku súkkulaði geti haft jákvæð áhrif á hjarta-og æðakerfi með því að auka blóðflæði, lækka blóðfitu og háþrýsting. Þessi efni eru talin hafa sterka andoxunarvirkni, eru bólgueyðandi og auka magn nituroxíðs í blóði og hafa þannig jákvæð áhrif á æðaveggi. Kakóbaunin er einnig talin hafa væg blóðþynnandi áhrif og gæti því talist fyrirbyggjandi fyrir blóðsegamyndun.

Hafa ber þó í huga að í þessum könnunum var eingöngu notast við dökkt súkkulaði að lágmarki 70% kakóinnihaldi en venjulegt mjólkursúkkuði inniheldur mikið magn sykurs og fitu og lágt innihald þessara virku efna. Til þess að njóta heilsubætandi áhrifa súkkulaðis er skynsamlegt að nota dökkt súkkulaði í stað mjólkursúkkulaðis til þess að fá nægilegt magn af virku efnunum. Súkkulaði er vitaskuld hitaeiningarík fæða sem neyta skal í hófi og sem hluta af fjölbreyttri fæðu. Vissulega er þörf á meiri rannsóknum á kakóbauninni svo hægt sé að ráðleggja hana sem fæðubót en þetta lofar góðu fyrir súkkulaðiunnendur. Þar sem páskarnir eru á næsta leyti er sniðugt að gera sitt eigið páskaegg með því að bræða dökkt súkkulaði og hella í páskaeggjaform. Svo er hægt að setja sjálfur málshátt og velja hollari sætindi úr heilsuhillunni til að fylla eggið.

Gleðilega páska!


Heilsukveðja, Ásdís grasalæknir.