Skokk og langlífi

Fjölbreytt og regluleg hreyfing er vissulega þáttur sem við ættum að tileinka okkur sem hluta af heilbrigðum lífsstíl. Engin ein tegund hreyfingar hentar öllum og klárlega er mikilvægt að finna hreyfingu við hæfi sem er í senn fjölbreytt og skemmtileg. Ef við tökum skokk sem dæmi þá komu nýlega í ljós áhugaverðar niðurstöður úr danskri rannsókn á vegum Copenhagen City Heart Study. Rannsóknin hefur verið gerð á yfir 20.000 þátttakendum á aldrinum 20 til 93 ára og staðið yfir í rúmlega þrjá áratugi. Eftir að hafa fylgst með þessu fólki sem skokkar reglulega og hvaða áhrif það hefur á heilsuna komust rannsakendur að því að karlkyns skokkarar framlengdu líf sitt um 6 ár og kvenkyns skokkarar um 5,5 ár. Áhrifin voru mest hjá þeim sem skokkuðu 1-2,5 klst. á viku á hægum og jöfnum hraða. Fyrir utan áhrif á langlífi, komu einnig í ljós að auki önnur heilsubætandi áhrif þess að skokka eins og t.a.m. lækkun kólesteróls, lækkun blóðþrýstings, betri stjórn þyngdar, andleg vellíðan, lækkun á bólguvísum, sterkara ónæmiskerfi og aukin beinþéttni. Þessar niðurstöður ættu að vera okkur góð hvatning til þess að gera hreyfingu að mikilvægum þætti í okkur daglega lífsstíl. Nú er bara að reima á sig skóna og finna vellíðunina og lífskraftinn sem fylgir því að hreyfa sig!

Heilsukveðja,
Ásdís grasalæknir.
www.facebook.com/grasalaeknir.is